Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að fela eigi utanaðkomandi aðila að gera heildarúttekt á bragganum við Nauthólsveg og að falla skuli frá því að láta innri endurskoðun Reykjavíkurborgar annast úttektina.
Sjálfstæðismenn segja að innri endurskoðun sé störfum hlaðin, þar sem henni hafi verið falin umfangsmikil úttekt á Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum hennar.
„Það er mikilvægt að úttekt á braggamálinu bitni ekki á Orkuveituúttektinni,“ segir í greinargerð með tillögu sjálfstæðismanna.
„Með því að fela utanaðkomandi aðila úttektina yrði rannsókn málsins auk þess hafin yfir allan vafa. Við rannsókn á málinu skal enginn angi málsins undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda. Enn fremur athafnir og athafnaleysi framkvæmdastjóra borgarinnar,“ segir í tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, sem verður tekin fyrir á fundi borgarstjórnar sem hefst kl. 14.
Á borgarráðsfundi í síðustu viku lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks fram svipaða tillögu og vísuðu til þess, rétt eins og nú er gert, að innri endurskoðun borgarinnar væri önnum kafin vegna úttektarinnar á Orkuveitu Reykjavíkur.
Breytingartillaga sjálfstæðismanna var hins vegar felld og meirihluti borgarráðs lét bóka að braggamálið væri grafalvarlegt og fá yrði allar upplýsingar upp á borðið „til að geta hafist handa við úrbætur á kerfinu svo að koma megi í veg fyrir að svona endurtaki sig“.
Meirihlutinn lagði áherslu á að innri endurskoðun væri óháð stofnun, fengi utanaðkomandi aðstoð eftir þörfum og meirihlutinn treysti henni til þess að leggja mat á málið.