Komumst ekki úr hjólförum með krónuna

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Krónan fellur hratt þessa dagana og við vitum hvað það þýðir. Það þýðir versnandi kjör í landinu,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.

„Með íslensku krónuna komumst við ekki upp úr hjólförunum og gamla sagan endurtekur sig aftur og aftur á kostnað almennings,“ bætti hún við og átti þar við veikingu krónunnar að undanförnu.

Lækkun krónu vegna hagstjórnarmistaka?

Oddný talaði um að stundum lækki krónan vegna utanaðkomandi áfalla en einnig vegna mistaka stjórnvalda. Benti hún á að í dag telji menn að ástæðan fyrir falli krónunnar sé versnandi staða ferðaþjónustunnar og kröfugerðir verkalýðsfélaganna.

Í fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra spurði hún hvort hún væri ekki sammála sér um að fall krónunnar um þessar mundir sé vegna hagstjórnarmistaka stjórnvalda. Þar vegi þungt ákvörðun kjararáðs og að stjórnvöld hafi ekki beitt þeim ráðum og tækjum sem þau búi yfir til að auka jöfnuð.

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Hari

Umræða um stöðu flugfélaga hefur áhrif

Katrín sagði stöðu Íslands miðað við til að mynda evruríkin vera þá að lífskjör hérlendis og laun hafi batnað mun hraðar hér en í evruríkjunum. Hún sagði veikingu krónunnar núna koma eftir töluvert langt tímabil sterkrar stöðu krónunnar og sagðist ekki hafa eina einhlíta skýringu á veikingu hennar. Taldi hún þó spila þar inn í umræðu um stöðu flugfélaganna og þá staðreynd að ferðaþjónustan vex ekki eins hratt og áður.

Hún sagði ákveðna óvissu ríkja um stöðuna á vinnumarkaði en benti á tillögur sem ríkisstjórnin lagði fram í tengslum við fjárlög, meðal annars um hækkun barnabóta og persónuafsláttar. Sagðist hún sammála því að mikilvægt sé að auka jöfnuð en talaði um að málið myndi ekki leysast með því að ganga í Evrópusambandið.

Tillögur felldar á Alþingi

Oddný steig aftur í pontu og sagði aðgerðir ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpinu ekki duga. Hún spurði hvers vegna staða ferðaþjónustunnar færi versnandi og nefndi að tillögur hafi verið felldar á Alþingi sem hefðu getað komið í veg fyrir stöðuna sem er núna uppi. Hún spurði ráðherra aftur hvernig ríkisstjórnin ætlar að ráðast á rót vandans án þess að taka upp nýjan gjaldmiðil.

Jafnvægi að komast á greinina

Katrín sagði vöxt í ferðaþjónustu vissulega hafa verið snarpan og þess vegna hafi ríkisstjórnin boðað komu- eða brottfarargjöld. Hún benti á að jafnvægi væri að komast á greinina og sagði að eingöngu hefði hægst á vexti ferðaþjónustunnar. Varðandi evruna sagði hún að ýmis ríki á evrusvæðinu séu að fást við verulegan vanda í stjórn efnahagsmála, til dæmis Ítalía.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert