Aflýsa varð fyrirhugðum haustnámskeiðum Vínskólans um vín og mat eftir að Hótel Reykjavík Centrum, sem hefur hýst námskeiðin síðan 2005, greindi forsvarsmönnum frá að þeir hafi lokað veitingahúsinu Fjalakettinum og fækkað starfsfólki það mikið að ekki sé lengur hægt að þjónusta námskeiðin.
„Það er leiðinlegt að fyrirvarinn var enginn,“ segir Dominique Pledel Jónsson, annar umsjónarmanna Vínskólans. „Maður þarf hins vegar alltaf að gera breytingar til að halda sér við og ég lít bara á þetta sem eitthvað sem ýti manni út í slíkt.“
Til stóð að halda 5-6 vín- og matarnámskeið fram að áramótum og hefur þeim öllum verið aflýst, en töluverður fjöldi var búinn að skrá sig.
Dominque segir ýmsa viðskiptavini Vínskólans hafa haft samband við sig eftir að hún sendi út tilkynninguna. „Fólk bara harmar þetta,“ segir hún. „Vínskólinn er búinn að starfa það lengi og við eigum góðan viðskiptavinahóp af fólki sem hefur mikinn áhuga og það myndast því persónuleg tengsl.“
Tvö vínnámskeið eru hins vegar enn á dagskrá, sem og sex aukanámskeið fyrir sérhópa, en í kjölfar hverra 20-25 sem skrái sig á námskeið fylgja yfirleitt 2-3 sérhópar. „Það eru bestu meðmælin,“ bætir Dominque við.
Vínskólinn leitar þessa dagana að nýju húsnæði fyrir vín- og matarnámskeiðin. „Við erum að kíkja í kringum okkur,“ segir Dominque og segir þau ekki vera að flýta sér. Salur, eldhús og kokkur þurfa að vera á staðnum og það sé ekki endilega auðfundið. „Ég á marga vini sem eru kokkar og sem við getum verið í samstarfi við, en það er erfiðara að sameina sal og eldhúsaðstöðu.“
Hún hefur þó fengið nokkrar ábendingar. „Ég fékk 2-3 ábendingar strax og ég sendi út fréttabréfið,“ segir hún, en rúmlega 1.000 manns eru á póstlista Vínskólans. „Fólk brást við, enda eru margir sem hafa komið á námskeið til okkar.“