„Nei, ég skálaði ekki við hana, ég hitti hana ekki einu sinni,“ segir Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, um ummæli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem féllu undir liðnum störf þingsins við upphaf þingfundar í gær.
Þar sagði Ásmundur að Píratar hefðu ekki verið samkvæmir sjálfum sér gagnvart Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, þar sem þeir hefðu ekki veigrað sér við að „skála við Piu Kjærsgaard og sitja undir ræðum hennar“ á sérstakri fullveldishátíð sem haldin var í Kaupmannahöfn í síðustu viku, þrátt fyrir að Píratar hefðu sniðgengið fullveldishátíðina í sumar vegna nærveru hennar.
Halldóra var fulltrúi Pírata í sendinefnd Alþingis sem var viðstödd hátíðina. Hún segist hafa tekið þátt, þar sem verið var að fagna íslenskri list í tilefni fullveldisafmælisins. „Þetta var sýning í dönsku óperunni með íslenskri list,“ segir Halldóra og nefnir meðal annars að danska sinfónían hafi þar spilað lög eftir íslenska tónsmiði.
Aðspurð hvort hún hafi setið undir ræðu Piu Kjærsgaard segir Halldóra að Kjærsgaard hafi flutt ræðu, en að hún hafi ekki getað fylgst með efni hennar þar sem ræðan var á dönsku.