Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir tilkynningar frá áhyggjufullum félagsmönnum streyma inn út af veikingu krónu.
„Eins og við Íslendingar þekkjum mætavel hefur veiking krónunnar þau beinu áhrif að verð á innfluttri vöru hækkar. Það er að gerast núna hjá heildsölum sem flytja inn vörur og hjá innlendum framleiðendum. Margir innlendir framleiðendur nota innflutt aðföng. Þau verða dýrari fyrir vikið. Fyrirtækin hafa lengi tekið á sig þann kostnað sem á þeim hefur dunið. Þá varðandi launahækkanir og aukið mótframlag í lífeyrissjóð sem kom til framkvæmda 1. júlí sl. Allt þetta spilar saman. Þannig að okkur sýnist vera mjög mikið um verðhækkanir í pípunum. Sumar eru þegar orðnar,“ segir Andrés í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir þær „óraunhæfu kröfur sem birtast í kröfugerð stærstu verkalýðsfélaganna“ ýta enn undir „að fyrirtækin leiti allra leiða til að hagræða og sjálfvirknivæða“.