Fyrstu skref nýs formanns BSRB verða að fylgja styttingu vinnuvikunnar eftir af krafti, auk þess sem hún ætlar að beita sér fyrir bættu starfsumhverfi starfsmanna í almannaþjónustu. Sonja Ýr Þorbergsdóttir var kjörin formaður á 45. þingi bandalagsins með 158 atkvæðum í dag.
„Kjarasamningar flestra aðildarfélaga okkar losna í mars á næsta ári, en hjá sumum núna um áramótin, svo við höfum ágætistíma til undirbúnings. Hér á þinginu ákveðum við stefnuna og við höfum unnið að undirbúningi á kröfu gagnvart stjórnvöldum,“ segir Sonja Ýr í samtali við blaðamann mbl.is.
Hennar fyrstu skref verða að fylgja eftir styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 35 og 80% þar af fyrir vaktavinnufólk. „Þetta er það sem mér hefur verið falið af þinginu og þetta er ein af okkar kröfum fyrir kjarasamningana. Svo á eftir að móta hinar.“
„Auðvitað horfum við til þess að ójöfnuður er að aukast. Launahækkanirnar sem samið var um í síðustu kjarasamningum eru ekki að skila sér,“ segir Sonja Ýr og nefnir að góðærið sé ekki að skila sér til allra, og síst þeirra tekjulægstu. „Þess vegna teljum við mikilvægt að stjórnvöld axli ábyrgð og stórauki stuðning sinn við þessa tekjuhópa.“
Sonja Ýr hefur starfað sem lögfræðingur BSRB í tíu ár og telur reynsluna eiga eftir að koma sér vel. „Þetta er tíu manna skrifstofa þar sem hlaupið er í öll verk. Ég þekki vel til, bæði til þeirra sem við störfum mest með og þá sem við eigum í viðræðum við.“
Aðspurð um hennar stefnu fyrir bandalagið segir Sonja Ýr að hún njóti þeirrar gæfu í starfi að stefnan sem mótuð hefur verið á þingi bandalagsins síðustu daga sé í samræmi við hennar hjartans mál. „Mínar áherslur í aðdraganda kosninga voru til dæmis þær að ég vil styrkja starfsumhverfi starfsmanna í almannaþjónustu. Þegar fólki líður vel í sínu starfi leiðir það til betri þjónustu. Þeir sem hana þiggja njóta góðs af og það skilar betra samfélagi.“