Það er margt sem saga kláms á Íslandi á sameiginlegt með sögu kláms annars staðar í heiminum, en af því var minna framleitt hér á landi en víða annars staðar. Þetta segir Kristín Svava Tómasdóttir, höfundur sagnfræðiritsins Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar sem kemur út í næstu viku, en þar fjallar hún sérstaklega um tímabilið á milli 1960 og 1980.
„Ég þekki engar íslenskar klámmyndir frá þessum tíma og framleiðsla á bersöglu efni á Íslandi fór nánast eingöngu fram í formi tímarita og lítilla vasabrotsbóka, svokallaðra ‚sjoppurita‘ sem tóku sitt efni upp úr erlendum blöðum,“ segir Kristín Svava.
„Í bókinni set ég þetta meðal annars í norrænt samhengi og það er mjög áhugavert að sjá hvað Norðurlöndin voru ólík. Í Danmörku og Svíþjóð varð til öflugur kynlífs- og klámiðnaður og klám var lögleitt í báðum löndum. Stundum er talað um Norðurlöndin sem svæði þar sem ekkert var bannað, en Ísland var líkara Noregi og Finnlandi þar sem dreifing á klámi var ekki leyfð á þessum tíma.“
Bókin er fyrsta fræðilega verkið sem gefið hefur verið út um sögu kláms á Íslandi og segir Kristín Svava það svo sem ekkert skrýtið þar sem það sé rosalega margt í Íslandssögunni sem eigi eftir að rannsaka og að þetta sé bara eitt viðfangsefni af mörgum. Stund klámsins er byggð á meistararitgerð Kristínar Svövu í sagnfræði, en henni þykir viðfangsefnið ekki síst áhugavert í ljósi þess hve fjölbreytt það er.
„Nálgunin sem ég tek er breið og menningarsöguleg og tengist alls konar sviðum eins og sögu ritskoðunar, sögu ríkisins, bókmenntasögu, kvikmyndasögu, prentsögu og svo náttúrulega sögu kynlífs, kynja og kynhneigða,“ segir Kristín Svava.
„Aðalkaflarnir eru þrír og í fyrsta lagi er ég að skoða hvernig klám var skilgreint fyrir dómstólum. Í öðru lagi skoða ég hvernig var talað um sænsku kvikmyndina Táknmál ástarinnar sem var sýnd hér á landi 1970 og í þriðja lagi fjalla ég um umræðuna um japanska kvikmynd sem heitir Veldi tilfinninganna. Það átti að sýna hana á Íslandi 1978 en það var hætt við það vegna þess að hún þótti of dónaleg.“
Kristín Svava segir kaflann um dómstólana ekki síst áhugaverðan. „Þegar horft er til þess hvað þótti refsiverð dreifing á klámi þá skipti miklu máli að fólk hefði grætt á henni. Svo skoða ég líka hvað það var í efninu sjálfu sem gerði það að verkum að dómstólar mátu það klámfengið. Þar komst ég að því að ef efnið fjallaði um eitthvað sem þykir óeðlilegt eða sýndi afbrigðilegar hneigðir, þá þótti það klámfengnara en annað, en jafnframt ef það sýndi ofbeldi.“
Í bókinni rekur Kristín Svava, að eigin sögn, einnig það sem fræðimenn hafa ritað um sögu klámsins fram að miðri 20. öld, sem og þróunina eftir 1980.
Útgáfuhóf vegna bókarinnar verður haldið í Bókabúð Forlagsins fimmtudaginn 25. október kl. 17:00, en þar verður útgáfu bókarinnar Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands eftir Axel Kristinsson einnig fagnað og mun forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, vera sérstakur heiðursgestur og ávarpa gesti. Í hádeginu sama dag flytur Kristín Svava fyrirlestur á vegum MARK í Háskóla Íslands.