„Við höfum ekki rætt þetta í samninganefndinni, en við látum eitthvað kostnaðarmat ekki hafa áhrif á það sem við erum að gera. Við teljum okkur vera að ná launum fyrir fólk sem þarf á því að halda og er á lágum launum í dag. Við verðum að hætta að tala um þetta kostnaðarmat og snúa okkur að því hvernig er hægt að klára þessa samninga,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Samtök atvinnulífsins sendu SGS bréf í gær þar sem lagt er til að óháðum aðila verði falið að vinna mat á áhrifum kröfugerðar SGS á félagsmenn, fyrirtæki, atvinnulífið og opinber fjármál.
„Þeim er algjörlega velkomið að láta einhvern óháðan aðila gera þetta, við ætlum ekkert að banna þeim það. En ég held að við séum ekkert að fara í þá vegferð, við vitum hvað fólk þarf að hafa til að geta lifað,“ segir Björn. „Menn lifa ekki á kostnaðarmötum, menn lifa á því hvað þeir fá í kjarasamningum.“
Spurður hvort ekki sé þörf á heildstæðu mati á áhrifum launakrafna sambandsins og hvort ekki beri að horfa til kaupmáttaraukningar í stað nafnverðshækkana kjarasamninga vegna hættu á launaskriði og verðbólgu segir Björn að það sé markmið SGS að fólk fái meira fyrir aurana sína.
„Þessi söngur er byrjaður og hefur alltaf verið í upphafi allra kjarasamninga. Það er ekkert nýtt í því,“ segir Björn. „Ég man ekki til þess að það hafi verið sett upp kostnaðarmat þegar kjararáð birti niðurstöðuna sína, og ekki þegar forstjórarnir hækkuðu. Þegar láglaunafólk á að fá hækkanir er allt annað í kortunum,“ segir Björn.
Einum fundi er lokið í kjaraviðræðum SGS og Samtaka atvinnulífsins þar sem SGS lagði kröfugerð sambandsins fram. Björn á von á því að næsti fundur verði í byrjun næsta mánaðar.