Gangi út fyrir sjálfar sig og aðrar konur

Frá Kvennafrídeginum 2016.
Frá Kvennafrídeginum 2016. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að núna að setja kröfuna á atvinnurekendur og opinberar stofnanir um að það verði raunverulega settir í gang ferlar og verklagsferlar. Eins og hefur komið í ljós væri synd að segja að þetta sé allt saman komið í lag,“ segir Maríanna Clara Lúthersdóttir, verkefnastýra Kvennafrís 2018 í samtali við mbl.is. 

Konur eru hvattar til þess að leggja niður störf kl. 14:55 á miðvikudag, 24. október, til þess að vekja athygli á kynbundnum mun atvinnutekna, sem og almennu öryggi kvenna á vinnustöðum. Fjölmörg samtök kvenna og launafólks standa að Kvennafríi, auk þess sem forsætisráðuneytið hefur lagt verkefninu lið. „Við hvetjum konur til þess að ganga út. Ekki bara fyrir sig, heldur fyrir allar aðrar konur á Íslandi,“ segir Maríanna Clara.

„Vinnuskyldu kvenna lokið kl. 14:55“

„Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55,“ segir á heimasíðu Kvennafrís. 

Baráttufundur verður haldinn á Arnarhóli undir yfirskriftinni „Breytum ekki konum. Breytum samfélaginu“, en þar munu þjóðþekktar baráttukonur koma fram og halda samstöðuræður.

Kvennafríið vekur heimsathygli

Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur niður vinnu um allt land til þess að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Framtakið sem og samhugur íslenskra kvenna vakti heimsathygli. 

Maríanna segir að áhugi erlendis frá sé enn fremur mikill í ár. „Konur í Noregi eru búnar að hafa samband við okkur, sem og konur í Póllandi, á Ítalíu og í Þýskalandi. Við ákváðum, vegna þess að það var kallað eftir því, að láta gera logoið okkar á ensku líka: Don't change women, change the world,“ segir Maríanna Clara.

Reynt er að ná til allra kvenna á Íslandi, starfandi kvenna á höfuðborgarsvæðinu, landsbyggðinni sem og kvenna af erlendum uppruna. 

Maríanna Clara Lúthersdóttir er verkefnisstýra Kvennafrís 2018.
Maríanna Clara Lúthersdóttir er verkefnisstýra Kvennafrís 2018. mbl.is/Eggert

„Við fengum Women, samtök kvenna af erlendum uppruna, í lið með okkur og fengum þær til að þýða efnið. Og þær eru búnar að vera alveg lygilegar. Heimasíðan okkar er komin á 14 tungumál, og þetta hafa þær gert, allt í sínum frítíma,“ segir Maríanna Clara. Hún bendir á að einkum séu það konur af erlendum uppruna sem séu viðkvæmur hópur þegar kemur að réttindaaráttu og brotum hvers kyns því þær þekkja ekki í öllum tilvikum réttindi sín og hafi almennt ekki sterkt bakland hér á landi. 

Í ár er sjónum ekki aðeins beint að launamuni kynjanna heldur jafnframt að öryggi kvenna á vinnustöðum, einkum í tengslum við #MeToo umræðuna.  „Þetta snýr allt að vinnustöðum og vinnustaðamálum og við viljum í rauninni bara sýna að þetta falli undir það líka, að konur geti verið óhultar í vinnunni. Við erum að tala fyrir mannréttindum og kjörum í víðum skilningi,“ segir Maríanna Clara. 

Dagskrá Kvennafrís 2018 má finna hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert