Kastaði buxum út um glugga verslunar

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur í 45 daga fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa í byrjun febrúar á þessu ári stolið buxum að verðmæti um 10 þúsund krónur úr verslun í Hafnarfirði með því að kasta þeim út um glugga í mátunarklefa verslunarinnar. 

Maðurinn var einnig ákærður fyrir akstur bifreiðar í Reykjavík sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna í mars á síðasta ári og að hunsa fyrirmæli lögreglu um að stöðva bifreiðina. Þess í stað jók maðurinn hraðann og ók m.a. tvisvar yfir á rauðu ljósi.

„Með háttsemi sinni raskaði ákærði umferðaröryggi á alfaraleið og stofnaði á ófyrirleitinn hátt og í augljósan háska lífi og heilsu annarra vegfarenda og lögreglumanna, en akstursskilyrði voru slæm, hálka var á veginum og veggripi því ábótavant,“ segir í dómnum.

Héraðsdómur áréttaði ævilanga ökuréttarsviptingu mannsins auk fangelsisdómsins. Þá var hann dæmdur til þess að greiða rúmlega 900 þúsund í málsvarnarlaun og annan sakarkostnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert