Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum á skútuþjófnaði á Ísafirði aðfaranótt 14. október er langt komin samkvæmt Hlyni Hafberg Snorrasyni yfirlögregluþjóni. Einn er í haldi lögreglu, grunaður um þjófnaðinn, og var hann úrskurðaður í farbann til 12. nóvember. Maðurinn, sem er erlendur, hefur tvívegis verið yfirheyrður vegna málsins.
Eigandi skútunnar, sem er franskur, kom til landsins stuttu eftir að upp komst um þjófnaðinn, en hann hafði hugsað sér að geyma skútuna á Ísafirði í vetur. Skútan var við höfn á Rifi um helgina og þegar fréttaritari Morgunblaðsins náði tali af honum vildi hann sem minnst tjá sig um þjófnaðinn fyrr en hann hefði gefið skýrslu hjá lögreglu.
Þegar mbl.is náði tali af eigandanum í dag staðfesti hann að hann hafi gefið skýrslu hjá lögreglu en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um þjófnaðinn. Forgangsmál hjá honum þessa stundina er að koma skútunni, Inook, í öruggt skjól fyrir veturinn.
Maðurinn sem grunaður er um verknaðinn var einn um borð í Inook þegar hann var handtekinn. Við rannsókn málsins hefur lögreglan meðal annars skoðað gögn sem veita upplýsingar um hvort maðurinn hafi verið einn að verki eða notið aðstoðar.
Hlynur segir að rannsóknin sé á lokametrunum og ljúki vonandi á næstu dögum.