Segir vellíðan ekki nást með valdboði

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/Styrmir Kári

Fjölskylduábyrgð hefur tekið miklum breytingum síðustu ár og áratugi. Staðan er breytt frá því þegar karlmenn voru fyrirvinnur, sá tími er sem betur fer liðinn, en nú leitar fólk að jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þetta kom fram í erindi Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, á ráðstefnu um vellíðan á vinnustað.

„Margir þekkja það „upplausnarástand“ á milli klukkan fimm og sjö alla daga þegar kemur í ljós hver á sækja hvern og skutla á hinar ýmsu æfingar,“ sagði Halldór.

Hann minnti á að í desember 1971 ákvað Alþingi að stytta dagvinnuvinnuviku úr 44 tímum á viku í 40 frá 1. janúar 1972. Hann sagði að niðurstaða þessarar styttingar á vinnutíma hafi verið lítil; yfirvinnustundum fjölgaði nánast jafnmikið og dagvinnustundunum fækkaði, eins og gögn kjararannsóknarnefndar staðfesti.

„Vellíðan á vinnustað mun ekki nást með valdboði stjórnvalda heldur með samtali atvinnurekenda og launþega. Stytting vinnuviku með valdboði skilar engu, nema því að breyta dagvinnu í yfirvinnu,“ sagði Halldór. Mikilvægt sé að koma af stað umræðu innan vinnustaða um skipulag vinnutíma, jafnt fyrirtækjum sem starfsmönnum til hagsbóta.

Kjarasamningar ættu að snúast um meira en karp um kaup og kjör

Hann sagði að stundum henti fólki að fara snemma heim úr vinnunni suma daga og það ætti þá að vera hægt að semja um slíkt við vinnuveitendur gegn lengri viðveru aðra daga – það geti hentað báðum aðilum.

Halldór ítrekaði að kjarasamningar ættu að snúast um sveigjanleika og vellíðan, ekki bara karp um kaup og kjör. „Mín skoðun er sú að á næstu árum og áratugum verða þessir liðir mikilvægari en þeir hafa verið,“ sagði Halldór en aukinn sveigjanleiki geri vinnustaði fjölskylduvænni. Hann lagði áherslu á að lífskjör væru samsett úr mörgum þáttum og sveigjanleiki vinnutíma væri mörgum ofarlega í huga.

„Dagvinnutíminn er ekki vandamálið, heldur heildarvinnutíminn,“ sagði Halldór. Yfirvinna eykur álag og er rót þess vanda sem um er fjallað. Hann benti á að á hinum Norðurlöndunum væri nánast engin yfirvinna unnin. „Fyrst að Norðurlöndin geta þetta þá getum við þetta líka til að búa til betra samfélag fyrir okkur öll. Við eigum að taka okkur Norðurlönd til fyrirmyndar og gera breytingar sem draga úr yfirvinnu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert