30 milljónir í móttökur

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi.
Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi. mbl.is/Eggert

Samanlagður kostnaður vegna móttaka á vegum Reykjavíkurborgar á síðasta ári var tæpar 20 milljónir króna. Það sem af er þessu ári nemur kostnaðurinn rúmum 10 milljónum króna.

Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, um kostnað borgarinnar af ýmsum móttökum og öðrum hátíðarviðburðum tengdum borginni.

Kostnaðurinn við veitingar nam tæpum níu milljónum króna á síðasta ári og kostnaðurinn við vínföng tæpum 2,5 milljónum króna. Önnur aðkeypt þjónusta nam rúmum fjórum milljónum króna.

Það sem af er þessu ári hefur kostnaðurinn við veitingar numið rúmum fimm milljónum króna og við vínföng um einni milljón króna.

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fram kemur í bókun Flokks fólksins að borgarfulltrúi sjái mikilvægi í ýmsum viðburðum og hátíðum sem eru ætlaðar borgarbúum og hinum almenna starfsmanni borgarinnar. „Hins vegar er ljóst að hér er um mikla peninga að ræða sem að hluta til fara í móttökur ætlaðar þröngum hópi, einhverjum útvöldum. Á fáum mánuðum hefur sem dæmi verið boðið til á annan tug móttaka sem ætlaðar eru skilgreindum, stundum þröngum, jafnvel elítuhópum. Allt er þetta greitt af almannafé,“ segir í bókuninni.

„Í borginni eru um 500 börn sem samkvæmt skilgreiningu eru fátæk. Þessum hópi, sem oft er ekki háværasti hópurinn í borginni, er ekki boðið í fínar móttökur á vegum borgarstjóra sem greiddar eru af almannafé. Þegar kemur að kostnaði sem þessum hlýtur það að vera skylda borgarmeirihlutans að velta við hverjum steini.“

Kolbrún leggur til að farið verði ítarlega ofan í saumana á kostnaðinum með það fyrir augum að draga úr honum. 

„Efst í forgangi þegar litið er til þessara mála eiga að vera borgarbúar sjálfir og hinn almenni starfsmaður borgarinnar. Það sem er í þágu barna þegar kemur að viðburðum og hátíðum er fé sem er vel varið. Það sem annars sparast við að velta við hverjum steini í þessu sambandi er fé sem mætti nota til að lækka skólamáltíðir, fjölga sálfræðingum til að draga úr biðlista og bjóða fátækum börnum upp á gjaldfrjáls frístundaheimili svo fátt eitt sé nefnt,“ segir í tillögu hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert