Tíu almennum borgurum verður heimilt að ávarpa þingfund Alþingis um málefni líðandi stundar einu sinni í mánuði, verði frumvarp þingmanna Pírata að lögum. Þar segir að borgarar skuli valdir af handahófi úr kjörskrá og að hvert ávarp megi ekki standa lengur en í tvær mínútur.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að flutningsmenn telji að með samþykkt þess verði Alþingi í forystu eflingu lýðræðis og þátttöku almennings í stjórnmálum.
Á Norðurlöndunum er ekki að finna fordæmi fyrir því að kjósendur geti tekið til máls í þingsal, en á Íslandi hafa fram komið tillögur um hvernig megi auka áhrif hins almenna borgara á störf þingsins. „Fordæmi eru fyrir því að aðrir en þingmenn, ráðherrar og forseti Íslands taki til máls á þingfundi ef sérstök ákvörðun um slíkt er tekin af forsætisnefnd, enda ekki verið að flytja þingmál eða taka þátt í störfum þingsins samkvæmt stjórnarskrá, lögum um þingsköp Alþingis eða þingvenjum. Dæmi um slíkt er ávarp forseta danska þjóðþingsins á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 18. júlí 2018.“
Í frumvarpinu segir að forsætisnefnd skuli setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins og það sé vilji flutningsmanna að málið fái að ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem metið verði hvort nauðsynlegt sé að leggja fram frumvarp til stjórnskipunarlaga samhliða samþykkt frumvarpsins.