„Við þurfum að vera undir allt búin“

Gylfi Hammer Gylfason, formaður kennslanefndar Ríkislögreglustjóra.
Gylfi Hammer Gylfason, formaður kennslanefndar Ríkislögreglustjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við fengum á námskeiðinu fræðslu bæði frá norrænum félögum okkar og Interpol. Þetta snýst um það að uppfræða bæði kennslanefndina, starfsmenn Rauða krossins og lögreglumenn, frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurlandi og Suðurnesjum, um starf kennslanefndar til þess að við séum betur í stakk búin til þess að mæta stærri slysum.“

Þetta segir Gylfi Hammer Gylfason, formaður kennslanefndar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is, en umrætt námskeið fór fram á Grand hóteli í Reykjavík í dag og í gær. Kennslanefndin hefur starfað frá árinu 1989 en hlutverk hennar er að bera kennsl á óþekkt lík og líkamsleifar. Nefndina skipa rannsóknarlögreglumenn, tæknimenn lögreglu eins og sérfræðingur á líftæknisviði, réttarlæknir, réttartannlæknar, meinafræðingur og læknir. Dómsmálaráðherra skipar í nefndina en í henni eru fjórir aðalmenn og þrettán varamenn.

Breyttar aðstæður á Íslandi

Ríkislögreglustjóri tók ákvörðun um það á árinu 2014 að efla kennslanefnd, meðal annars vegna stóraukins ferðamannastraums til landsins sem fylgir aukin hætta á að bera þurfi kennsl á fleiri einstaklinga en fyrr, bæði þegar einstaklingar farast eða hópslys verða. Þannig hefur einnig umferð skemmtiferðaskipa aukist um landhelgi Íslands og ferðir fólks um hálendið. Þessi þróun þýði aukna hættu á stærri slysum þar sem margir einstaklingar gætu látist. Við það bætist mögulegar náttúruhamfarir og dauðsföll af þeim sökum.

Harald Skjønsfjell, formaður norsku kennslanefndarinnar hjá KRIPOS, Gylfi Hammer Gylfason, …
Harald Skjønsfjell, formaður norsku kennslanefndarinnar hjá KRIPOS, Gylfi Hammer Gylfason, formaður kennslanefndar ríkislögreglustjóra og Håvard Andre Aalmo, varaformaður norsku kennslanefndarinnar og formaður vinnuhóps hjá Interpol um kennslanefndarmálefni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er einn liður í því að þjálfa upp mannskapinn til þess að hann fái betri innsýn í það sem hann þarf að gera. Við vinnum eftir leiðbeiningum frá Interpol og starfslýsingu frá Ríkislögreglustjóra auk reglugerðar. Þetta er hluti af samstarfi okkar við hinar Norðurlandaþjóðirnar og Interpol. Breyttar aðstæður eru hér á landi. Ferðamannastraumurinn hefur stóraukist, mikil flugumferð er bæði til landsins og yfir það, skemmtiferðaskip með fleiri þúsund farþega koma reglulega til landsins. Við þurfum að vera undir allt búin, annað væri óábyrgt af okkur.“

„Þetta er mjög þakklátt starf“

Einn liður í að efla kennslanefndina hefur verið kaup á búnaði. „Við þurfum auðvitað að mennta fólkið og þjálfa. Þetta er einfaldlega hluti af því. Þetta er starf sem fáir sjá og fáir vita af en skiptir mjög miklu máli. Það er mikilvægt að við göngum til þessara starfa af virðingu. Það skiptir okkur miklu máli að geta hjálpað. Þetta er mjög þakklátt starf,“ segir Gylfi. Verið sé að fást við viðkvæm verkefni. Þær aðferðir sem notast sé við séu vísindalegar en þar er einkum horft til lífsýna, tanna og fingrafara einstaklinga.

Sérfræðingar í kennslanefndarstörfum frá Noregi, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð önnuðust kennslu á námskeiðinu með aðkomu sérfræðinga á vegum Interpol. Kennslanefndin hefur sérstaklega átt í mjög góðu samstarfi við Norðmenn í þessum efnum en á síðasta ári var endurnýjaður samstarfssamningur ríkislögreglustjóra og KRIPOS í Noregi um aðstoð í stærri slysum á Íslandi, þjálfun og menntun. Níu mál komu til úrlausnar hjá kennslanefnd á síðasta ári.

Frá námskeiðinu.
Frá námskeiðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert