Drífa Snædal var kjörin forseti Alþýðusambands Íslands á 43. þingi sambandsins á Hilton Reykjavík Nordica í dag.
Drífa hlaut 192 atkvæði, eða 65,8%. Sverrir hlaut 100 atkvæði, eða 34,2%. Alls voru 293 atkvæði greidd en eitt var ógilt.
Drífa, sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands (SGS), og Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags, buðu sig fram í embættið.
Gylfi Arnbjörnsson er fráfarandi forseti ASÍ.
Drífa steig í pontu og þakkaði fyrir stuðninginn og atkvæðin sem hún fékk. Einnig þakkaði hún Sverri fyrir góðan og sanngjarnan aðdraganda að kosningunni.
„Það er ekkert sérstaklega félagslegt við það að etja samherjum hverjum gegn öðrum. Það er mikilvægt að leggja til hliðar eftir kosningar hver studdi hvern, gegn hverjum,“ sagði hún og kvaðst ætla að vinna fyrir alla aðildarmenn ASÍ.
Þetta er í fyrsta sinn sem kona er kjörin forseti ASÍ í sögu sambandsins og þakkaði Drífa baráttu kvenna þá staðreynd að hún stæði uppi sem sigurvegari.
„Kæru félagar, kraftar mínir eru ykkar næstu tvö árin og ég bíð spennt eftir niðurstöðu þessa þings,“ sagði hún.