Launamunur kynjanna minnkaði í hruninu

Karlar hafi almennt haft hærri laun og voru því líklegri …
Karlar hafi almennt haft hærri laun og voru því líklegri til að fá launalækkun. mbl.is/Golli

Fleiri karlar misstu starf sitt eftir hrun en konur, karlar voru líklegri til að fá launalækkun og fengu meiri launalækkun en konur. Að þessu komst Katrín Ólafsdóttir í rannsókn sinni á launabreytingum á árunum 2008 og 2009. Við fyrstu sýn virtist konum hafa verið hlíft í hruninu, en niðurstöður Katrínar kveða á um annað.

Katrín flutti erindi um rannsókn sína á Vísindabragðaref Háskólans í Reykjavík í hádeginu og bar það yfirskriftina Launalækkun eftir hrun  var konum hlíft? Í samtali við mbl.is segir hún að launalækkanirnar hafi ekkert haft með kyn að gera heldur hafi þær snúist um launin.

Rannsóknin byggist á upplýsingum Hagstofunnar sem ná til 40% vinnumarkaðarins og eru þær sömu og launavísitalan byggist á. Katrín skoðaði breytingar á reglulegum launum, án yfirvinnu, og bar saman fólk hjá sama atvinnurekanda.

„Þegar ég byrjaði að skoða þetta sá ég að launamunur kynjanna minnkaði á þessu tímabili, fleiri karlar misstu atvinnuna, fleiri karlar fengu launalækkun og fengu meiri launalækkun.

Við fyrstu sýn virðist sem þetta snúist bara um kyn, en í rauninni hafði kyn ekkert með líkurnar á launalækkun að gera,“ segir Katrín. Karlar hafi almennt haft hærri laun og voru því líklegri til að fá launalækkun.

„Ef launahækkanir eru skoðaðar þá fengu karlar marktækt meiri hækkun en konur. En það var bara lítill hluti fólks sem fékk launahækkun á meðan 80% fengu launalækkun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert