Fjölmiðlakonan María Lilja Þrastardóttir svarar bandarísku listakonunni Meagan Boyd varðandi ásakanir þeirrar síðarnefndu gegn Orra Páli Dýrasyni, fyrrverandi trommara Sigur Rósar, um að hafa nauðgað sér fyrir nokkrum árum, en hann er eiginmaður Maríu Lilju. Segir María Lilja að fyrst hafi hún trúað sögu Boyd, en svo áttað sig á því að hún væri að lýsa sama máli og María Lilja hafði sjálf orðið fyrir nokkrum vikum áður.
Segir María frá því að áður en Boyd og Orri hafi hist hafi hún sjálf orðið fyrir nauðgun og hafi Orri vel þekkt til málsins, enda fyrsti vinur hennar sem kom á staðinn. Hann hafi sagt Boyd þá sögu, sem Boyd noti nú gegn honum. Segir María Lilja að það sé eins og að vera í hryllingsmynd að upplifa að eigin nauðgunarmál sé notað gegn eiginmanni hennar.
Svarið er skrifað á Reddit-samfélagsmiðilinn og undirritað af Maríu Lilju, en þar birtir hún meðal annars afrit af ákvörðun ríkissaksóknara um að fella niður mál gegn manni sem María Lilja sakar um að hafa nauðgað sér og nefnt er hér að ofan. Greindi vefútgáfa Fréttablaðsins fyrst frá málinu í gær, en svar Maríu Lilju var fyrst birt fyrir níu dögum.
María Lilja fer í bréfinu yfir hvernig Orri og Boyd hittust fyrir utan nektarstað, en þar hafi hann verið til að kaupa fíkniefni. Boyd hafi þá komið upp að honum og sagst vera aðdáandi og boðist til að keyra hann upp á hótel. Orri hafi þegið það og sent Über-bifreið sem hann var með í burtu. Segir María Lilja að Orri hafi verið asni að þiggja boðið og að bjóða henni upp á hótelherbergi til sín. Þar hafi þau drukkið saman og hún hafi málað mynd á líkama hans.
Segist hún ekki drusluskamma Boyd, enda sé sökin Orra að hafa boðið henni upp á hótel. Hins vegar hafi Orri ekki viljað leyfa Boyd að koma með sér í upptökuver daginn eftir og ekki heldur vera áfram á hótelherberginu. Segir María Lilja að hún skilji gremju hennar og að Boyd hafi mögulega fundið fyrir skömm á þessum tíma. Hún hafi sjálf verið á svipuðum stað þegar henni hafi verið hafnað eftir að annar hafi haft frumkvæðið að daðri. Hins vegar þurfi Boyd að komast yfir þetta.
Þá rifjar María Lilja upp að sér hafi áður en Boyd hitti Orra sjálfri verið nauðgað á Íslandi. Málið var látið niður falla aðeins nokkrum vikum áður en þau hittust í Bandaríkjunum. Lýsir María Lilja upplifun sinni af nauðguninni og að þegar hún hafi loks komist út úr íbúðinni þar sem nauðgunin átti sér stað hafi hún byrjað á að hringja í vini. Enginn hafi svarað svo snemma morguns nema Orri sem hafi verið fyrstur á vettvang og þar af leiðandi aðalvitni í málinu.
Segir María Lilja að Orri hafi upplýst Boyd um þetta allt saman á hótelherberginu þegar þau hittust og nú hafi Boyd ákveðið að segja hennar sögu sem sína eigin. Segist hún aldrei munu skilja af hverju Boyd hafi ákveðið að fara þessa leið. „Þú hræðir mig,“ segir María Lilja.
Spyr hún hver ástæðan geti verið. „Var það til að kærasta þín hætti að vera reið við þig? Var það vegna haturs, reiði og skammar sem þú sagðir vinum þínum lygi sem varð svo stærri? Var það svo þú myndir ekki missa vinnuna eftir að hafa farið heim með gesti af nektarstaðnum?
Hver sem ástæðan var er hún slæm og röng,“ segir María Lilja. Segir hún að ákvörðun Boyd um að hafa nefnt sig á nafn í viðtölum vegna málsins hafi orðið til þess að fjöldi vina og annarra hafi ráðist gegn Maríu Lilju á samfélagsmiðlum. „Eins og ég sé sek um eitthvað sem ég hef enga stjórn yfir.“ Segir hún fjölmiðla, femínista, andfemínista og alls konar fólk hafa haft samband við sig og leitað eftir viðbrögðum. Hins vegar hafi Orri aðeins fengið stuðningsskilaboð. Segir hún þetta birtingarmynd þess að samfélagið finni leið til að refsa konum í hvaða kringumstæðum sem er.
Þá segir María Lilja að eftir að hafa verið tengd við þetta mál hafi hún fengið áfallastreituröskun og varla farið úr rúmi í eina viku og það hafi á hverjum degi haft mikil áhrif á sig að sjá eigið nauðgunarmál notað gegn eiginmanni sínum opinberlega. „Þetta er eins og sena úr hryllingsmynd,“ segir María Lilja.
Endar hún svar sitt á því að segja að hún hafi ekki sjálf óskað eftir þessari athygli, Boyd hafi valið það fyrir hana. Þótt hún sé ekki ábyrg fyrir aðgerðum annarra á netinu, þá hafi Boyd sannarlega útbúið jarðveginn fyrir það aðkast sem hún og Orri hafi orðið fyrir. „Láttu okkur í friði. Þú hefur gert nóg,“ segir María Lilja að lokum.