Ekki typpi heldur lítil hafpulsa

Litla hafpulsan eru um tveir metrar að hæð og sómir …
Litla hafpulsan eru um tveir metrar að hæð og sómir sér vel í tjörninni innan um álftir, gæsir og endur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfir tveggja metra hár skúlptúr sem afhjúpaður var í Reykjavíkurtjörn í gær hefur vakið töluverða athygli, ekki síst fyrir lögun sína sem minnir helst á kynfæri karlmanns. Höfundur verksins, Steinunn Gunnlaugsdóttir, segir það ekki hafa verið upphaflegan tilgang, heldur sé um hafpulsu að ræða og er verkið hennar framlag til 100 ára afmælis fullveldis Íslands.

„Þetta er pulsa sem situr eins og hafmeyjan á lítilli brauðbollu úti í tjörninni, er bísperrt og ánægð með sig, en svo er hún líka lítil hafpulsa í tjörn, handalaus og einhver kynjavera sem veit ekki hversu öflug hún er. Svo er hún pínu óhugnanleg,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is.

Steinunn segir að óneitanlega sé einnig einhver kynusli í pulsunni. „Þetta er bæði hafmeyja, sem er yfirleitt kvenkyns, en líka typpi, þar sem það er mjög erfitt að vinna með pulsuform án þess að það verði typpi. En mér fannst það ekkert slæmt,“ segir hún.

„Lýðræðið er pulsa“

Skúlptúrinn er hluti af Cycle-listahátíðinni sem fer fram í fjórða sinn þessa dagana undir yfirskriftinni Þjóð meðal þjóða og með sýningunni lýkur tveggja ára rannsókn á fullveldi Íslands í samhengi við nýlendusöguna, að sögn Guðnýjar Guðmundsdóttur, listræns stjórnanda hátíðarinnar, en fjallað var um hátíðina í Morgunblaðinu í vikunni. 

Forsaga skúlptúrsins nær hins vegar aftur til fyrri hluta árs 2009 þegar Steinunn bjó til myndband og innsetningu sem var sýnt í aðdraganda alþingiskosninganna. „Ég skírði það myndband „Lýðræðið er pulsa“ og þá kviknaði áhugi minn á pulsu sem myndlíkingu og myndlíkingin fyrir mér var lýðræðið,“ segir Steinunn. 

„Hugmyndin með myndbandinu var að pulsan í pulsubrauðinu er skylda, það er lýðræði, við getum ekkert valið um hvernig það er, hvort við fáum okkur það eða ekki, við fæðumst inn í það. En það sem við getum valið er áleggið ofan á og þegar við förum að kjósa veljum við áleggið ofan á. En á endanum erum við öll étandi pulsur og munurinn á flokkunum er ekki meiri en munurinn á milli remúlaðis og sinneps, allt bara frekar ódýrt „junk“,“ segir hún.

Steinnunn Gunnlaugsdóttir, listamaður.
Steinnunn Gunnlaugsdóttir, listamaður. Ljósmynd/Aðsend

Bjóst ekki við svona mörgum alþingiskosningum

Eftir að Steinunn sýndi myndbandið í fyrsta skipti ákvað hún að sýna það á kjördegi fyrir hverjar alþingiskosningar og bjóst hún þá við að sýna það á fjögurra ára fresti. „Ég hélt að þetta yrði mjög „chillað“ en ég er búin að vera sveitt að setja þetta upp,“ segir Steinunn, sem hefur sett sýninguna upp fjórum sinnum, það er á kjördegi 2009, 2013, 2016 og 2017.

Pulsan hefur því fylgt henni í bráðum tíu ár og við undirbúning skúlptúrsins kom hafpulsan til hennar. „Það er eitthvað órætt við hana. En þetta er framlag mitt til 100 ára afmælis fullveldisins,“ segir Steinunn.

Litla hafpulsan var afhjúpuð við hátíðlega athöfn í gærkvöldi og segir Steinunn að stundin hafi verið töfrandi og viðtökurnar hingað til hafi verið mjög góðar. „Það var mikið hlegið við afhjúpunina og geggjað stuð. Tjörnin fraus tuttugu mínútum eftir að við afhjúpuðum hana og það voru norðurljós og næstum því fullt tungl. Það var geggjuð stemning og ég hef fengið skemmtileg og óvænt viðbrögð.“

Hafpulsan mun standa fram í desember

Samkvæmt upplýsingum frá Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar, fengu aðstandendur Cycle-listahátíðarinnar afnotaleyfi hjá afnotadeild borgarinnar fyrir uppsetningu skúlptúrsins. Litla hafpulsan mun því standa í tjörninni fram í desember.

En er Steinunn ekkert hrædd um að pulsan fái ekki að standa óáreitt í allan þennan tíma?  

„Það er mjög freistandi að pota í hana eða faðma hana. Það er hluti af því þegar maður setur eitthvað upp í almenningsrými. Það getur hvað sem er gerst og það gerist bara það sem gerist,“ segir hún.

Draumur Steinunnar er að pulsan verði steypt í brons og fái að standa í tjörninni það sem eftir er. „Ég vona að sem flestir hafi gaman af henni og að hún veiti innblástur á sem víðastan hátt. Á endanum er þetta bara einhver kynjavera sem býr í tjörninni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert