Miðflokkurinn í Reykjavík birti myndband á Facebook áðan sem kosningastjórninni þótti of gróft til að birta í miðri kosningabaráttu. Í myndbandinu, sem er eins konar skets, brýst Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, inn í „fjárhirslur borgarinnar“. Þær reynast tómar.
Myndbönd Miðflokksins vöktu athygli í kosningabaráttunni síðasta vor en þar skutu víkingar í hlutverki eins lags hjálparsveina Vigdísar upp kollinum. Í þessu áður óbirta myndbandi snúa þeir aftur. „Við reyndum að koma með smá öðruvísi andblæ inn í þessa kosningabaráttu í vor. Þetta var eina myndbandið sem við tókum ekki séns á að setja í loftið,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is.
Vigdísi finnst myndbandið þarft innlegg í umræðuna. „Okkur þótti þetta of gróft í þeim skilningi að við höfðum ekki alveg nákvæmar heimildir til að standa við það sem kemur þarna fram. En nú hefur komið á daginn að þetta er bara staðan í borginni.“
Vigdís segir borgina aldrei hafa fengið meiri tekjur en sökum „rosalegrar sóunarstefnu“ séu fjárhirslurnar tómar. Þetta eigi og verði að setja í samhengi við lélegan rekstur og framúrkeyrslu í ýmsum „krúttlegum verkefnum“.
Vigdís nefnir „braggaskandalinn“ í því sambandi, mál, sem hún segir að enn eigi eftir að fá botn í. „Innri endurskoðunar bíður ærið verkefni, þó að ég hefði viljað hafa það óháða úttekt,“ segir Vigdís.
Sjón mun sögu ríkari: