„Misskiptingin er að aukast og fólk kallar eftir réttlæti í launakröfum,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, nýkjörinn formaður BSRB, í þjóðfélagsþættinum Þingvöllum á K100 í dag. Kjaramálin voru til umræðu en auk Sonju voru Þröstur Ólafsson, hagfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri verkamannafélagsins Dagsbrúnar, og Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, gestir þáttarins.
Sonja sagði að krafa BSRB í komandi kjaraviðræðum væri hækkun lægstu launa til að fólk gæti lifað af og kröfunni væri beint að stjórnvöldum og atvinnurekendum. „Góðærið hefur ekki skilað sér til allra og skattbyrðinni hefur verið velt yfir á þá tekjulægstu,“ sagði Sonja.
Hún sagði meginmarkmiðið að eitthvert jafnvægi myndaðist. „Við erum að horfa til einstaklinga sem ná ekki endum saman á móti þeim sem eru á ofurlaunum og eiga í vandræðum með að eyða sínum launum.“
Þröstur sagðist skilja forystu verkalýðshreyfingarinnar og vilja hennar til breytinga. Hann sagði þó að það væri verið að fara í gömul spor og það yrði að temja reiðina.
„Í byrjun 9. áratugarins hafði verið mikil ólga á vinnumarkaði lengi á undan. Það varð verðsprengja, verðbólgan fór yfir 100% á ákveðnu tímabili og það er furðulegt að menn skyldu lifa það af í siðuðu samfélagi. Þegar ég hætti sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra í þeirri ríkisstjórn fór ég til Dagsbrúnar. Þar var sú skoðun mjög algeng að menn ættu að gera nógu háar kröfur,“ sagði Þröstur og bætti við að þegar svona háar kröfur væru gerðar yrði erfitt að lenda.
Spurður hvort hann hefði áhyggjur af því að háar kröfur skiluðu sér ekki í kaupmætti til almennings sagði Þröstur að verkalýðshreyfingin ætti að einbeita sér að samneyslunni og finna stöðugan grunn fyrir norræna velferðarmódelið. „Hér er flokkur sem er alltaf við völd sem predikar að alltaf eigi að lækka skatta en það þýðir minni samneysla. Það ætti að hækka skatta hjá því fólki sem getur borgað þá,“ sagði Þröstur.
„Er ekki allt í lagi, ef þú ert með þrjár milljónir á mánuði, að helmingur fari í skatt? Ég er að tala um fólk með há laun. Sá sem er með þrjár milljónir á mánuði borgar sömu prósentu í skatt og sá sem er með 300.000,“ bætti Þröstur við.
„Hvað eru ofurlaun, hvað eru há laun og hvað eru eðlileg laun? Ég ætla ekki að draga neina línu um það,“ sagði Eyjólfur. Hann sagði stjórnendur vinna langan vinnudag, alla daga vikunnar, alla daga ársins.
„Auðvitað heyri ég eins og aðrir þegar talið berst að mjög háum launum sem ganga fram af fólki. Mér finnst eðlilegt að beina því til stjórnenda og stjórna að horfa inn á við og gæta hófs,“ bætti Eyjólfur við.
Hann var spurður um hvort rætt hefði verið að hæstu laun ætti ekki að verða hærri en þreföld lágmarkslaun. „95% launþega í landinu eru með 1,3 milljónir á mánuði eða minna. Þar liggur megnið af hópnum. Mér finnst við alltaf vera að velta fyrir okkur jaðardæmum á báða vegu sem trufla umræðu. Þetta lagast ekki með tilskipunum eða upphrópunum,“ sagði Eyjólfur og bætti við að mjög fáir væru með yfir tvær milljónir í laun á mánuði.
Hann sagði jaðardæmin ekki mörg og heildarmyndin mætti ekki truflast af þeim. „Það sem ég óttast mest er að við getum lent í verðbólgu. Það væri alveg skelfilegt.“
Hann vildi ekki meina að harðar viðræður væru fram undan milli SA og forystu verkalýðshreyfingarinnar og að sest yrði niður til að reyna að finna lausnir.
Sonja ræddi styttingu vinnuviku og sagði yngri kynslóðir hafa önnur gildi; vildu verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum. „Það eru áskoranir hvernig eigi að sinna börnum og samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf,“ sagði Sonja og benti á að tilraunaverkefni hjá Reykjavíkurborg, þar sem vinnuvikan var stytt úr 40 tímum á viku í 36, hefði gengið vel.
Eyjólfur sagði að í þessu samhengi yrði að horfa á heildarmyndina. Á Norðurlöndunum væri yfirvinna 1-3% af dagvinnulaunum en sama tala væri 40% hér á landi. Til að auka sveigjanleika og lífsgæði þyrfti að stytta heildarvinnuvikuna og það væri hægt.
„Við sjáum af einhverjum ástæðum að álag, til að mynda vinnuálag, veldur kulnun. Stytting vinnuviku kemur í veg fyrir það,“ sagði Sonja. Hún bætti því við að margir hefðu ekki tök á því að taka yfirvinnu í starfi og bættu þá við sig vinnu til að ná endum saman.
Eyjólfur sagði þau vera að tala um sama hlutinn frá mismunandi sjónarhorni. Lykilatriði væri að draga úr heildarvinnutímanum. Hann sagði enn fremur að í kjarasamningum fyrir þremur árum hefði hugmyndin verið að hækka lægstu launin. „Ég sá ekki fyrir að það myndi fara í skattgreiðslur.“