Segir hátekjuskatt koma til greina

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Haraldur Jónasson

Ásmundur Einar Daðason, félagsmála- og jafnréttisráðherra, sagði að skapa þyrfti þá tilfinningu að hér á landi byggi ein þjóð en ekki tvær þegar kæmi að launauppbyggingu. Sagðist hann hafa það á tilfinningunni þegar hann skoðaði launauppbyggingu að hér byggju tvær þjóðir og ef ekki tækist að breyta þeirri tilfinningu gæti þurft að breyta skattkerfinu, meðal annars með hátekjusköttum. Sagði hann fólk í efsta lagi þjóðfélagsins þurfa að sýna ábyrgð.

Ásmundur Einar var gestur í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og ræddi þar meðal annars um komandi kjarabaráttu, en mikill fjöldi kjarasamninga rennur út nú um áramótin og hefur verkalýðsforystan farið fram með kröfur um mikla hækkun lágmarkslauna.

Sagði Ásmundur að það ætti að vera hvati í launauppbyggingu til þess að fólk menntaði sig, væri drífandi og kæmi með nýjungar, en það gengi ekki upp þegar fyrirtæki greiddu efsta laginu laun sem verkamenn gætu ekki látið sig dreyma um á heilli starfsævi.

Sagði hann holan hljóm í því þegar stjórnendur í atvinnulífinu töluðu um að ekki væri hægt að hækka laun niður alla röðina en efstu laun hækkuðu. Efsta lagið þyrfti að sýna ábyrgð. „Við þurfum að byrja ofan frá,“ sagði hann og talaði um að setja lok á þá sem hæstu launin fengju.

Sagðist hann ætla að beita sér fyrir jöfnuði í þjóðfélaginu í komandi kjarasamningum. Vísaði hann til þess að nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar væri að endurskoða skattkerfið og hátekjuskattur væri hluti af því. Þáttarstjórnandi spurði Ásmund ítrekað hvort hátekjuskattur hefði verið ræddur innan ríkisstjórnarinnar og sagði Ásmundur að svo hefði ekki verið en skatturinn hefði verið ræddur innan þeirra hópa sem hefðu með breytingarnar að gera.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert