Næstkomandi fimmtudagskvöld, 1. nóvember kl. 19.30 verður opnuð í Hallsteinssal í Safnahúsi Borgarfjarðar sögusýning um Hvítárbrúna við Ferjukot.
Hún var vígð þennan dag árið 1928 og þykir tilhlýðilegt að minnast tímamótanna, sem verður gert með veggspjaldasýningu. Á henni verður margvíslegur fróðleikur um ýmislegt tengt brúnni og byggingu hennar á sínum tíma, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Hvítá í Borgarfirði er með straumharðari vatnsföllum á Íslandi og brú yfir hana á sínum tíma skipti sköpum í samgöngum, bæði innan héraðs í Borgarfirði og á leiðinni norður í land. Var brúin mikilvæg þjóðleið allt þar til núverandi Borgarfjarðarbrú var tekin í notkun fyrir um 40 árum.