Um 30 þúsund heimili hér á landi eru á leigumarkaði. Alls telja 6300 heimili, um 21% þeirra sem leigja, líkur á því að þeir missi húsnæðið sitt. Þetta kom fram í máli Unu Jónsdóttir, deildarstjóra leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði, á Húsnæðisþingi.
Una kynnti niðurstöður könnunar sem leigumarkaðsdeild Íbúðalánasjóðs lét framkvæma og náði til handahófskennds úrtaks leigjenda af landinu öllu.
„Við erum að tala um fólk og heimili, ekki prósentur og hlutföll,“ sagði Una. Hún sagði algengast að fólk leigi af einstaklingi á almennum markaði, annað hvort frá ættingum eða öðrum, eða hátt í 60% þeirra sem leigja. Þeir telja einnig líklegra en aðrir að þeir missi húsnæði sitt.
Hún sagði að 78% leigjenda væri ánægðir með húsnæði sitt og að þeir sem leigja hjá ættingjum og vinum eru marktækt ánægðari með húsnæðið.
„Þrátt fyrir almenna ánægju og það að meirihlutinn telur húsnæðið sitt öruggt vilja flestir ekki vera á leigumarkaði,“ sagði Una. Hún sagði einungis 8% leigjenda vilja vera á leigumarkaði. „Það eru ekki nema tvö til þrjú þúsund af þessum 30 þúsund heimilum.“
Samkvæmt rannsókninni telja fleiri leigjendur nú en fyrir þremur árum líklegt að þeir kaupi eigið húsnæði næst þegar þeir skipti um húsnæði, 40% samanborið við 29% fyrir þremur árum.
Fram kom hjá Unu að algengast sé að leigusamningar séu gerðir til eins til tveggja ára. Leigjendur hafa að meðaltali flutt tæplega fjórum sinnum á undanförnum tíu árum og þeir sem hafa minnstar tekjur hafa oftast flutt.
„Allir vita að fólk gerir það ekki að gamni sínu. Þetta kostar tíma og peninga. Það er dýrt að flytja,“ sagði Una.
Hún sagði málin vera að þróast í rétta átt með það markmið að auka aðgengi að öruggum íbúðum í samræmi við greiðslugetu íbúa. Gert er ráð fyrir 3200 slíkum íbúðum en nú þegar hefur 1425 íbúðum verið úthlutað um allt land.
Una tók dæmi af íbúðum sem íbúðafélagið Bjarg byggir í Úlfarsárdal. Það eru tveggja herbergja 48 fermetra íbúðir sem eiga að vera litlar og praktískar til að leigan geti verið lág.
„Er þetta nóg til að almenna íbúðakerfið uppfylli skilyrði sitt að sjá tekju- og eignaminni fjölskyldum fyrir húsnæði? Ég held að þessar 1425 íbúðir séu bara byrjunin,“ sagði Una.
„Það þarf að fara að sinna þessum málaflokki af meiri alvöru. Þarf að móta raunhæfar lausnir og sjá til þess að þeim sé framfylgt. Þetta er mál sem kemur okkur öllum við.“