Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gerir ekki ráð fyrir að hann muni segja af sér vegna braggamálsins svokallaða. Þetta er meðal þess sem fram kom í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við borgarstjóra í þættinum 21 á Hringbraut í kvöld.
Sagði Dagur kröfuna um að hann axli ábyrgð vegna málsins með því að segja af sér fyrst og fremst koma úr einni átt. Á endanum sé það þó ekki bara hans að svara þeirri spurningu. „Þetta er málflutningur sem Morgunblaðsarmur Sjálfstæðisflokksins hefur haldið á lofti, ekki bara í þessu máli heldur hefur þetta verið nefnt óvenjuoft í tengslum við ýmislegt,“ sagði Dagur í þættinum.
Þá kvað hann stöðugar kröfur um afsögn vera nýjan tón í borgarpólitíkinni. „Að hvað sem aflaga fer þá eigi borgarstjóri að fara frá. Þetta mál er nú hjá innri endurskoðun. Við erum að fara yfir það,“ sagði Dagur. „Ég kveinka mér ekkert undan því að mín ábyrgð eða annarra verði rædd þegar niðurstöðurnar liggja fyrir, en mér finnst þetta dæmi um mál sem eru mikilvæg, alvarleg, fara svolítið fljótt ofan í pólitískar skotgrafir áður en að öll kurl eru komin til grafar.“