„Ég er bjartsýnn á Íslendinga og ég er bjartsýnn á skynsemi þeirra og ég er bjartsýnn á það að það sem fólk vill raunverulega sé hár kaupmáttur eins og núna og stöðugleiki, en það sem fólk vilji ekki séu kollsteypur og innistæðulausar launahækkanir fortíðar,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við mbl.is.
SA stóð fyrir opnum fundi í Hörpu í morgun, þeim síðasta í fundaröð hringinn í kringum landið, þar sem Halldór og Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs samtakanna vörpuðu sameiginlega ljósi á stöðuna í íslensku hagkerfi og útskýrðu hvernig sú staða sem blasi við ýti undir þá afstöðu SA að best væri að semja um afar hóflegar launahækkanir í yfirstandandi kjaraviðræðum.
Verkalýðsleiðtogar og stjórnmálamenn voru á meðal þeirra sem sóttu fundinn í Hörpu í morgun. Halldór ávarpaði þá Vilhjálm Birgisson frá VLFA og Ragnar Þór Ingólfsson frá VR í máli sínu og spurði þá hvort ekki væri kominn tími á að reyna að læra af fortíðinni og semja hóflega til að varðveita stöðugleikann.
Vilhjálmur segir í samtali við blaðamann mbl.is að honum þyki vanta að SA skoði kaupmátt þeirra sem eru á leigumarkaði. „Leiguverð hefur hækkað um 90% frá 2011 og lægstu laun um rétt rúm 60%, þannig að það liggur fyrir að það er bullandi kaupmáttarrýrnun hjá þeim sem höllustum standa í íslensku samfélagi. Það vantaði algjörlega inn í þessa mynd,“ segir Vilhjálmur, og bætti við að efstu lög samfélagsins hefðu skammtað sér gríðarlegar launahækkanir á liðnum misserum.
„Þegar menn hafa áhyggjur af því að þegar lægstu laun hækki þá hríslist það upp allan stigann, hvað þá með þegar efstu lögin hækka um eina milljón á mánuði, að það myndi nú hríslast niður stigann? Menn hafa ekki áhyggjur af því þá,“ segir Vilhjálmur, sem segir að það sé ekkert í málflutningi SA sem hafi komið honum á óvart.
„Verkefnið framundan er viðamikið, stórt, erfitt og krefjandi og það er verkefni okkar allra að setjast niður og reyna að koma hér á kjarasamningi, þríhliða kjarasamningi, stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar, þar sem horft verður á hagsmuni þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi og í raun og veru okkar allra.“
„Kaupmáttur – eins og ég segi – og prósentur, eru svo blekkjandi að það hálfa væri haugur,“ sagði Vilhjálmur og vísaði aftur til þess að kaupmáttaraukning fólks á leigumarkaði væri ekki til staðar.
„Inn í okkar kröfugerðum eru við að horfa á flata krónutölu handa öllum, óháð því hversu há laun þú ert með. Tökum einfalt dæmi: Meðallaun forstjóra í Kauphöllinni eru 4,7 milljónir, ef þeir fengju þessa flötu krónutöluhækkun sem við erum að tala um þá væri launahækkun þeirra í prósentum 0,7%, með öðrum orðum, þeir yrðu fyrir bullandi kaupmáttarrýrnun. Myndir þú hafa áhyggjur af mönnum sem eru með 4,7 milljónir, þó þeir myndu lenda í einhverri kaupmáttarrýrnun en væru að fá sömu krónutölu og hinir lægst launuðu? Nei, ég hef engar áhyggjur af þessu.“
Halldór segir, spurður út í málflutning Vilhjálms, að hvað varði háan húsnæðiskostnað þeirra sem standi höllustum fæti í samfélaginu þurfi að horfa á kostnaðarliðinn sjálfan sem sé að gera okkur erfitt fyrir og orsakir hás leiguverðs og húsnæðisverðs.
„Horfum á húsnæðisliðinn. Það er fullkomlega tilgangslaust að hækka laun til þess að leysa framboðsskort á húsnæði, eina sem hærri laun og óbreytt framboð gerir er að hækka verð á húsnæði. Við leysum þetta með því að byggja meira, eins og við höfum alltaf gert. Verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins geta sannarlega náð saman um þetta og þegar verkalýðshreyfingin og SA vinna saman, þá gerast hlutirnir og við getum leyst þetta, í mínum huga. Innan vébanda SA eru öll stærstu verktakafyrirtæki landsins og ef við ákveðum að gera eitthvað saman í slagkraft, þá gerist það með miklum myndarbrag,“ segir Halldór Benjamín.
Að hans mati er „einsýnt“ að ríkisvaldið og sveitarfélögin þurfi að koma að aðgerðum í húsnæðimálum, ásamt auðvitað atvinnurekendum og verkalýðshreyfingunni.
„Þetta er hinn raunverulegi vandi sem við stöndum frammi fyrir. Það er framboðsskortur, við erum búin að byggja allt of lítið mörg ár í röð. Það er búið að úthluta allt of fáum lóðum í Reykjavík, svo dæmi sé tekið. Þetta er grunnvandinn. Ef við værum ekki að glíma við þennan háa húsnæðiskostnað hjá sumum þá held ég að staðan á vinnumarkaði væri með allt öðrum hætti, enda sýna bara tölurnar að þegar þú hækkar laun um 30-40% á þremur árum, þá genguru ekkert lengra en það.“
Spurður út í krónutöluhækkanirnar sem verkalýðshreyfingin hefur verið að fara fram á sínum kröfugerðum segir Halldór að þegar afdrif umsaminna krónutöluhækkana í kjarasamningum fortíðar séu skoðaðar, komi í ljós að þær umbreytist alltaf í prósentuhækkanir, upp allan launaskalann innan verkalýðshreyfingarinnar.
Orsökina fyrir þessu segir Halldór vera ákveðinn ósamræmanleika innan verkalýðshreyfingarinnar, sem meðal annars berjist bæði fyrir hækkun lægstu launa og því að meta menntun háskólamenntaðra til launa, eftir því hvaða félag er um að ræða. Halldór vill að verkalýðsfélögum fækki á Íslandi.
„Það eru svo mörg verkalýðsfélög að þú getur aldrei samræmt stöðuna. Því segi ég að eitt af markmiðum okkar til langs tíma sem samfélags er að fækka verkalýðsfélögum og gera þau stærri, svo þú sért ekki með marga tugi verkalýðsfélaga.“
Halldór Benjamín benti á það að á bakvið hvern kjarasamning á íslenskum vinnumarkaði séu einungis um 220 launþegar, að meðaltali. „Og það er að meðaltali. Við erum með kjarasamninga þar sem eru, einn, tveir, fimm starfsmenn. Hugsaðu þér, heildarkjarasamning, fyrir örfá störf.“
Halldór segir að hann átti sig á því að það sé stórt samtal framundan og að það samtal sé löngu hafið. „Við erum til í þetta samtal og ræðum mikið saman, mun meira held ég en fólk áttar sig á,“ segir Halldór. Samtalið þurfi hins vegar að taka tillit til stöðunnar í efnahagsmálum.
„Það er engin list fólgin í því að gera óhóflegar launakröfur sem enginn getur staðið undir, það er engin list fólgin í því að knýja fram kjarabætur sem breytast beint í verðbólgu og það er engin geta fólgin í því að haga kjarasamningum með þeim hætti að þeir rýri lífskjör þjóðarinnar. Þetta getur hver sem er gert. Raunveruleg list og geta er fólgin í því að hitta akkúrat á þetta, að meta ytri aðstæður rétt á hverjum tíma, hvenær rétt sé að fara í miklar launahækkanir, því stundum gengur vel í rekstri fyrirtækjanna og þá er hægt að hækka laun talsvert. Stundum gefur á bátinn, eins og núna – og þá þurfum við að aðlaga kaupkröfur að því,“ segir Halldór Benjamín.
„Menn eru byrjaðir að aðlaga sig að breyttum aðstæðum,“ segir Halldór Benjamín og bætir við að staðan til framtíðar litið birtist býsna vel í könnun sem SA framkvæmdi á meðal aðildarfyrirtækja sinna. Niðurstöður hennar voru að fyrirtækin sem tóku þátt töldu að meðaltali um 2% rými til launahækkana.
„Sumstaðar er það ekkert, sumstaðar er það meira en meðaltalið er einhversstaðar þarna. Ef við reynum að máta þetta inn í þessa mynd sem búið er að draga upp núna um hvernig hagvöxtur verður á næstu árum, þá erum við einhvers staðar þarna. Það er farið að hægja verulega á hagkerfinu, við erum ekki að fara inn í kreppu, en það er svolítið undir okkur komið hvernig þetta mun þróast á næstu árum. Ef við förum of langt, þá mun það sama gerast núna og hefur alltaf gerst. Krónan mun gefa eftir, verðbólga verður vaxandi og kaupmátturinn fer þverrandi,“ segir Halldór Benjamín.
„Þjóðin hefur náð svo miklum árangri á undanförnum 10 árum, búin að snúa í raun töpuðu tafli yfir í frábæra stöðu. Við höfum öll lagt svo hart að okkur að við megum ekki glutra þessu núna niður með því að vera mistæk við gerð kjarasamninga.“