Afvopnunarsamningur um meðaldrægar kjarnaflaugar verður til umfjöllunar á fundi utanríkismálanefndar Alþingis sem kemur saman klukkan eitt í dag. Þar munu fulltrúar utanríkisráðuneytisins fara yfir áhrif á þjóðaröryggi Íslands, komi til þess að svokölluðum INF-afvopnunarsamningi verði rift af hálfu Bandaríkjanna, líkt og Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað að gera.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata og nefndarmaður í utanríkismálanefnd, óskaði eftir að fá kynningu á samningnum vegna fregna að fyrirætlunum Trumps um að rifta samkomulaginu við Rússa, sem leggur bann við meðallangdrægum eldflaugum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður nefndarinnar, segir að um hefðbundinn upplýsingafund sé að ræða þar sem fulltrúar frá utanríkisráðuneytinu munu kynna samninginn og möguleg áhrif riftunar á honum.
„Við munum fá kynningu á áhrifum þessa á þjóðaröryggi Íslands og stöðu annarra NATO-ríkja gagnvart þessum yfirlýsingum,“ segir Áslaug.
Í vikunni hefur ráðstefna Atlantshafsbandalagsins um afvopnun og takmörkun á útbreiðslu gereyðingavopna staðið yfir hér á landi. Henni lauk í gær og segir Áslaug mögulegt að nefndarmenn muni á fundi sínum fá upplýsingar sem koma af þeirri ráðstefnu. „Þær munu eflaust gagnast vel í upplýsingagjöfinni,“ segir Áslaug.
Á fundinum verður einnig rætt um breytta framkvæmd á afgreiðslu Schengen vegabréfsáritana og mun fjárlaganefnd einnig sitja þann hluta fundarins. Þá er kynning frá þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins einnig á dagskrá fundarins.