Heilbrigðisráðherra segir þá umræðu sem skapast hefur um nýtt frumvarp hennar um þungunarrof mikilvæga. Samkvæmt frumvarpinu, sem Svandís Svavarsdóttir hefur ákveðið að leggja fram, verður þungunarrof heimilt fram að lokum 22. viku meðgöngu.
Samkvæmt núgildandi lögum er þungunarrof heimilt til loka 16. viku. Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið í nýju frumvarpsdrögunum er hversu mikið tímamörkin séu hækkuð og hefur Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, meðal annars bent á að um hálfa meðgöngu sé að ræða. Í viðtali í kvöldfréttum Rúv í síðustu viku sagði hún að ekki sé hægt að skilja annað en að mörkin séu lengd til að hægt sé að enda líf fóstra sem eru með frávik eða fötlun. Frumvarpið ýti því undir fordóma í garð fatlaðs fólks.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þetta mikilvæga umræðu. „Ég er líka mjög hugsi yfir ýmsu sem við erum að gera í þessum efnum sem lítur til dæmis að skimunum. Allt spilar þetta saman og þetta er umræða sem á að eiga sitt pláss í umfjöllun um frumvarpið.“
Það sem vegur þyngst með frumvarpsbreytingunni að hennar mati er hins vegar að sjálfsákvörðunarréttur kvenna sé skýr. „Ákvörðunin er aldrei auðveld, hvorki þegar meðgangan er komin stutt né langt, en hún verður að vera konunnar. Það verður að vera þannig að það sé hennar ákvörðun og hennar réttur sem er númer eitt, tvö og þrjú í þeim efnum,“ segir Svandís.
Þá segir hún að kynfrelsi kvenna sé gríðarlega mikilvægur þáttur, pólitískt séð, sem þurfi að vera alvöru umfjöllunarefni í stjórnmálum.