Verði farið að launakröfum verkalýðshreyfingarinnar og vinnuvikan stytt gæti það hækkað byggingarkostnað um jafnvel fimmtung. Þetta segir umsvifamikill verktaki sem óskaði nafnleyndar.
Máli sínu til stuðnings setti hann fram rauntölur um kostnað á verkefni sem er í gangi í Reykjavík. Væru laun hækkuð um 42 þúsund á mánuði eftir áramót og vinnuvikan óbreytt, eða 40 stundir, muni heildarkostnaðurinn aukast um 5%.
Með sömu launahækkun og styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir aukist heildarkostnaðurinn um 10% og um 15% sé vinnuvikan stytt í 30 stundir, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að tölurnar séu námundaðar. Tekið væri tillit til alls launakostnaðar, þ.m.t. hjá undirverktökum og birgjum.