Miðflokkurinn segir að allt bendi til þess að ríkisstjórnin ætli sér að innleiða hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins, þrátt fyrir ótal viðvaranir, heiman frá og að utan.
„Það er ótækt að jafnstórt hagsmunamál og hér um ræðir sé látið reka á reiðanum af starfandi stjórnvöldum. Að líkindum í trausti þess að málið, sem kallar á verulegt fullveldisframsal, renni í gegnum ríkisstjórn og Alþingi, án þess að til varna verði tekið.“
Þetta kemur fram í stjórnmálaályktun sem var samþykkt á flokkráðsfundi Miðflokksins í dag, en fundurinn fór fram á Akureyri og lauk nú síðdegis.
Fram kemur í ályktuninni, að á hundrað ára fullveldi Íslands virðist ríkisstjórninni fyrirmunað að gera það eina sem þjóðin krefjist af henni, það sé að verja fullveldið.
„Í málefnum landbúnaðarins skín í gegn áhugaleysið gagnvart fullveldinu. Rök er snúa að heilnæmi innlends landbúnaðar eru afgreidd sem forpokuð, rök sem snúa að mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og matvælaöryggi fyrir íslenska þjóð eru afgreidd sem afturhaldssöm og sögð merki um þjóðernishyggju. Tilfinningin fyrir stolti gagnvart eigin þjóð og því sem hún hefur áorkað virðist valda óþoli hjá litlum en háværum hluta þjóðarinnar,“ segir í ályktuninni.
Þá segir flokkurinn, að styðja eigi við atvinnulífið með hóflegum sköttum og skynsamlegu regluverki. Öflugt velferðarsamfélag geti ekki þrifist án öflugs atvinnulífs.
„Við eigum að verðlauna dugnað, á sama tíma og við styðjum við og verjum þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Heildarskattheimta er í dag með því hæsta sem þekkist á meðal vestrænna þjóða. Sú þróun hefur orðið á vakt Sjálfstæðisflokksins. Af þeirri leið verðum við að snúa, með það fyrir augum að auðvelda fyrirtækjum að vaxa og dafna og tryggja það að fjölskyldur landsins geti sjálfar varið sem mestu af sínu sjálfsaflafé.“