Í kvöld lauk könnun meðal íbúa sameinaðs sveitarfélags Sandgerðis og Garðs um nafn fyrir sveitarfélagið. Flestir völdu nafnið Suðurnesjabær.
Alls höfðu 2.709 þátttökurétt í könnuninni, allir íbúar sveitarfélagsins fæddir árið 2002 og fyrr. Alls tóku 933 tóku þátt og var þátttakan því 34,44%, þetta kemur fram á vef sveitarfélagsins.
Valið stóð á milli þriggja nafna sem bæjarstjórn samþykkti að leggja fyrir íbúana.
Nafnið Heiðarbyggð hlaut 57 atkvæði, eða 6,1%. Suðurnesjabær hlaut 703 atkvæði, eða 75,3%. Þá hlaut Sveitarfélagið Miðgarður 160 atkvæði, eða 17,1%.
Áður en könnunin hófst lýsti bæjarstjórn því yfir að ef þátttaka yrði yfir 50% og ef eitt nafn hlyti yfir 50% greiddra atkvæða yrði niðurstaðan bindandi fyrir bæjarstjórn.
„Þar sem þátttaka í könuninni [sic] náði ekki 50%, þá er niðurstaða könnunarinnar ekki bindandi fyrir bæjarstjórn. Bæjarstjórn mun taka málið fyrir á bæjarstjórnarfundi þann 7. nóvember og ákveða hvert framhaldið verður. Þrátt fyrir að nú liggi fyrir hvaða nafn hlaut flest atkvæði í könnuninni, þá þarf bæjarstjórn að samþykkja hvert nafn sveitarfélagsins verði og ráðherra að staðfesta það. Það er því ekki komið nafn á sveitarfélagið fyrr en bæði bæjarstjórn og ráðherra hafa staðfest nafnið,“ segir á vef sveitarfélagsins.