Tuttugu manns voru í þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-GNA þegar mest lét þegar fimmtán mönnum var bjargað úr flutningaskipinu Fjordvik sem strandaði við Helguvík í nótt.
Sigurður Heiðar Wiium, yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar sem sinnti útkallinu, segir að þyrlan hafi verið á mörkum hámarksvigtar, en áhöfnin hafi allan tímann haft vaðið fyrir neðan sig og endurmetið í sífellu þyngd þyrlunnar. Ekki er útilokað að þyrlurnar verði nýttar frekar við björgunaraðgerðir í Helguvík.
Aðstæður til björgunar í nótt voru að mörgu leyti erfiðar, en sigmaður Gæslunnar rifbeinsbrotnaði eftir að hann missti jafnvægið við lendingu í skipinu.
„Á vissan hátt voru aðstæður ágætar, háskýjað og gott skyggni. Það var dálítið dimmt, tunglið ekki fullt og frekar lítið. Birtan af höfninni var dálítið truflandi, það var á vissan hátt óþægilegt. Vindur á svæðinu var mikill líka. Það gerði það að verkum að við vorum með góða afkastagetu lungann af tímanum,“ segir Sigurður Heiðar og nefnir að vindar á hlið þyrlunnar hafi verið sérstaklega erfiðir viðureignar.
„Þar að auki var ókyrrt á svæðinu; vindurinn skall þarna á landið og skipið og tvístraðist í allar áttir. Sjólag skipti okkur um borð ekki miklu máli, skipið var skorðað þarna upp við garðinn og barðist aðeins utan í hann. Að öðru leyti voru aðstæður ágætar fyrir okkur. Strákarnir niðri áttu aftur á móti erfitt með að fóta sig þegar skipið skall utan í land. Það var augljóslega óþægilegt fyrir þá,“ segir hann.
Áhöfn þyrlunnar var kölluð út skömmu fyrir klukkan eitt og tuttugu mínútur yfir eitt var TF-GNA komin í loftið. Um hálftvö var þyrlan komin á vettvang og rúmlega tvö höfðu fjórtán skipverjar og einn hafnsögumaður verið hífðir um borð. TF-LIF, önnur þyrla Landhelgisgæslunnar, var einnig send til hjálpar.
„Við fylltum vélina þannig að ekki var mikið rými eftir. Þegar vindur kom skakkur á þyrluna mátti ekki mikið út af bregða. Á tímabili lét þyrlan illa,“ segir Sigurður, en auk hinna fimmtán sem bjargað var voru fimm í áhöfn; Flugstjóri, flugmaður, sigmaður, spilmaður og læknir. „Í áhöfninni eru eðalmenn á öllum stöðum og allir stóðu sig vel, en þetta tók að sjálfsögðu á,“ segir hann og nefnir að þröngt hafi verið á þingi enda hafi mennirnir verið stórir og stæðilegir.
„Við vorum alveg í hámarksvigt fyrir leit og björgun en vissum að þetta væri gerlegt og að afkastageta væri í lagi. Þetta var allt eins öruggt og hægt var. Síðan höfðum við auðvitað TF-LIF við hlið okkar ef illa færi. Hún kom um það leyti sem við byrjuðum að hífa og var til taks. Þegar tenging er komin við skip er vaninn að halda þeirri tengingu og klára verkið hratt og örugglega,“ segir Sigurður Heiðar.
Björgunaraðgerðin sem slík tók rúmlega þrjátíu mínútur, en Sigurður Heiðar segir að björgun sem þessi skuli „eftir bókinni“ taka um 27 mínútur. Nokkrar mínútur hafi farið í að koma á samskiptum við skipverjana.
„Við sendum tengilínu niður og það tók smá stund að koma verklaginu alveg í gang. Síðan sendum við okkar mann niður sem sendi tvo og tvo upp í björgunarlykkjum og hélt í tengilínu,“ segir hann.
Slys á áhöfn eru mjög sjaldgæf hjá Landhelgisgæslunni að sögn Sigurðar Heiðars, en sigmanni áhafnarinnar skrikaði fótur við lendingu á skipinu og rifbeinsbrotnaði sem fyrr sagði.
„Hann missti jafnvægið við lendingu, rakst í eitthvað og rifbeinsbrotnaði. Þetta er afar sjaldgæft hjá okkur. Ég hef verið í þessu í yfir tuttugu ár og þetta hafði aldrei gerst áður hjá okkur. Hluti af skýringunni á þessu er að skipið var á mikilli hreyfingu og aðstæður þar erfiðar. Honum til hróss beit hann á jaxlinn og kláraði verkefnið. Þegar þessu var lokið komum við honum á Borgarspítalann,“ segir hann.
Aðspurður segir Sigurður Heiðar mögulegt að áhöfn þyrlunnar komi aftur að björgunaraðgerðum í Helguvík.
„Það getur farið svo að við komum meira að þessu. Nú eru bæði varðskipin komin á vettvang og það kemur í ljós hvað verður. Við höfum áður notað þyrlur til að koma tengingu milli skipa og ef þess gerist þörf núna þá gæti farið svo að við gerum það. Það kemur í ljós, en Þór og Týr eru á staðnum. Annað hefur ekki verið ákveðið og vettvangurinn er í góðu lagi,“ segir hann.