5% áttu 42% eigin fjár landsmanna

Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, óskaði upplýsinga um tekjur og eignir …
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, óskaði upplýsinga um tekjur og eignir landsmanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eigið fé þeirra 5% landsmanna sem mest áttu árið 2017 samkvæmt skattframtölum var 1.676,7 milljarðar króna og hlutfall eigin fjár þeirra af eigin fé allra landsmanna var 42%. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Loga Einarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um eignir og tekjur landsmanna árið 2017.

Einnig var óskað svara um eigið fé þess 1% og 0,1% landsmanna sem mest áttu í lok árs 2017 og um breytingar á þessum tölum frá árinu 1997.

Eigið fé þess 1% landsmanna sem mest áttu árið 2017 var 718,6 milljarðar króna og hlutfall eigin fjár þeirra af eigin fé allra landsmanna var 18,3%. Eigið fé þess 0,1% landsmanna sem mest áttu við lok árs 2017 var 236,6 milljarðar króna og hlutfall af eigin fé allra landsmanna var 6%.

Heildareignir þeirra 5% sem mestar eignir áttu 1.852 milljarðar

Í svari fjármála- og efnahagsráðherra komu einnig fram tölur um heildareignir þessara hópa landsmanna og hlutfall af heildareignum landsmanna. Heildareignir þeirra 5% landsmanna sem mestar eignir áttu við lok árs 2017 samkvæmt skattframtölum voru 1.852 milljarðar króna og hlutfall af heildareignum allra landsmanna 32%.

Heildareignir þess 1% landsmanna sem mestar eignir áttu við lok árs 2017 voru 758,6 milljarðar kr. og hlutfall heildareigna þeirra af heildareignum allra landsmanna var 13,1%. Heildareignir þess 0,1% landsmanna sem mestar eignir áttu við lok árs 2017 voru 241,4 milljarðar kr. og hlutfall heildareigna þeirra af heildareignum allra landsmanna var 4,2%.

Tekjuhæsta 1% með 165,3 milljarða króna í tekjur

Heildartekjur með fjármagnstekjum samkvæmt skattframtölum hjá tekjuhæstu 5% landsmanna voru 397,2 milljarðar kr. og hlutfall tekna þeirra af tekjum allra landsmanna árið 2017 var 22,6%. Heildartekjur með fjármagnstekjum hjá tekjuhæsta 1% landsmanna voru 165,3 milljarðar kr. og hlutfall tekna þeirra af tekjum allra landsmanna árið 2017 var 9,4%. Heildartekjur með fjármagnstekjum hjá tekjuhæsta 0,1% landsmanna voru 63,7 milljarðar kr. og hlutfall tekna þeirra af tekjum allra landsmanna árið 2017 var 3,6%.

Heildartekjur án fjármagnstekna hjá tekjuhæstu 5% landsmanna voru 298,7 milljarðar kr. árið 2017 og hlutfall þeirra af tekjum allra landsmanna (án fjármagnstekna) var 18,7%. Heildartekjur án fjármagnstekna hjá tekjuhæsta 1% landsmanna voru 91,7 milljarðar kr. og hlutfall þeirra af tekjum allra landsmanna (án fjármagnstekna) var 5,7%. Heildartekjur án fjármagnstekna hjá tekjuhæsta 0,1% landsmanna voru 18,8 milljarðar kr. og hlutfall þeirra af tekjum allra landsmanna (án fjármagnstekna) var 1,2%.

Tekjuhæstu 10% áttu 36,7% af eigin fé landsmanna

Í fyrirspurninni var einnig spurt um það hvað hinir tekjuhæstu ættu stóran hluta annars vegar af eigin fé landsmanna og hins vegar heildareignum landsmanna árið 2017.

Tekjuhæstu 10% landsmanna samkvæmt skattframtölum áttu í lok árs 2017 samanlagt 36,7% af eigin fé allra landsmanna og 34% af heildareign allra landsmanna. Tekjuhæstu 5% landsmanna árið 2017 áttu við lok árs 2017 samanlagt 24,9% af eigin fé allra landsmanna og 21,6% af heildareign allra landsmanna.

Tekjuhæsta 1% landsmanna árið 2017 átti við lok árs 2017 samanlagt 10,7% af eigin fé allra landsmanna og 8,2% af heildareign allra landsmanna. Tekjuhæsta 0,1% landsmanna árið 2017 átti við lok árs 2017 samanlagt 3,4% af eigin fé allra landsmanna og 2,4% af eigin fé allra landsmanna.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert