„Ég lét áhöfn þyrlunnar vita að eitthvað hefði brotnað en að við skyldum klára þetta,“ segir Guðmundur Ragnar Magnússon, stýri- og sigmaður hjá Landhelgisgæslunni, sem rifbeinsbrotnaði þegar hann seig niður í skipið Fjordvik í björgunaraðgerðum aðfaranótt laugardags, en bjarga þurfti fimmtán mönnum af strandaða skipinu.
Morgunblaðið ræddi við Guðmund í gær þar sem hann slakaði á ásamt konu og syni, Kristjönu Björgu Vilhjálmsdóttur og Elvari Dreka Guðmundssyni, með tvö brotin rifbein og það þriðja brákað. Hann segir að áhöfn þyrlunnar hafi samstundis byrjað að undirbúa þyrluna þegar útkallið barst, búnaður hafi verið tekinn úr þyrlunni TF-GNA til að létta hana, enda óalgengt að fimmtán manns séu hífðir upp í þyrlu.
Guðmundur var síðasti maðurinn af skipinu ásamt skipstjóranum en þá hafði hann stýrt tengilínunni frá skipinu upp í þyrlu, allan tímann rifbeinsbrotinn.
Hafist var handa við að dæla olíu úr skipinu, sem situr enn fast í Helguvík, í gær áður en aðgerðum var hætt tímabundið þar sem þær gengu hægar en vonir höfðu staðið til. Þegar Morgunblaðið fór í prentun stóð til að útvega öflugri dælur til að hefja mætti dælingu aftur núna í morgunsárið. Rúmlega hundrað tonn af gasolíu voru á skipinu þegar það strandaði.