„Það er alveg ljóst að þetta getur orðið snúin staða þegar nær dregur jólum,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.
Jólabókaflóðið er nú hafið af fullum þunga og nýjar bækur rata í hillur bókabúða á hverjum degi. Vinsælustu bækurnar seljast gjarnan upp og þá þurfa forlögin að panta endurprentanir til að anna eftirspurn.
Nú ber hins vegar svo við að möguleikar útgefenda til að prenta innbundnar bækur á Íslandi eru litlir sem engir eftir að prentsmiðjan Oddi seldi fyrr á árinu tækjabúnað úr landi, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.
„Það þýðir einfaldlega að við útgefendur þurfum að leita til erlendra aðila með alla prentun á innbundnum bókum. Það hefur verið fylgifiskur jólabókaflóðsins að vinsælustu bækurnar hefur þurft að endurprenta, einu sinni og jafnvel tvisvar. Við höfum pantað endurprentanir nokkrum dögum fyrir jól og jafnvel fengið upplag afhent á Þorláksmessu. Sá leikur verður ekki endurtekinn í bráð og alveg ljóst að það þarf að taka tillit til þessa þegar upplag er ákveðið,“ segir Egill.