„Stórskotahríð úr glerhýsi“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Það er gott að Sigmundur Davíð telji sig geta treyst félögum sínum í Miðflokknum. En geta þau treyst honum?“ Þannig hefst pistill Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, á Facebook, þar sem hún hjólar í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formann flokksins.

Sigmundur gagnrýndi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, VG og Framsóknarflokks harðlega á flokksráðsfundi Miðflokksins um helgina og sagði stjórnina bæði verklitla og kjarklausa.

Ég ætla að leyfa mér að líkja nýlegum yfirlýsingum hans við stórskotahríð úr glerhýsi, þegar hann talar um kjark- og verkleysi annarra. Sami maður og hljóp út úr sjónvarpsviðtali,“ skrifar Silja.

Hún bætir því við að Sigmundur hafi sárasjaldan sést í þingsal þegar hann var forsætisráðherra, hafi slitið stjórnarsamstarfi gegn vilja þingflokksins og hlaupið út af flokksþingi þegar hann tapaði kosningu til formanns.

Maður sem mætti varla til vinnu í heilt ár, en þáði þó laun fyrir, getur trútt um talað þegar kemur að verkleysi...nei annars, hann var auðvitað ekki verklaus heldur upptekinn við að stofna framfarafélag og flokk um sjálfan sig. Já, og safna frímerkjum,“ skrifar Silja.

Hún segir það vel þekkta aðferð popúlista og einræðisherra til að ná völdum að búa til óvini, sem verði aldrei sigraðir. Fólkið verði að styðja „hugrakka“ foringjann því annars gæti eitthvað hræðilegt gerst.

Miðflokksmenn eru hrifnir af hinum „kjarkaða foringja“ sínum. Sumir hverjir standa jafnvel í þeirri trú að hann hafi einn og sjálfur leiðrétt húsnæðislán Íslendinga, sem er auðvitað alger firra. Þar komu að fjölmargir sérfræðingar, hinir alræmdu embættismenn ýmissa stofnana og ráðuneyta sem og auðvitað allur þingflokkur Framsóknarflokksins. Grasrót Framsóknarflokksins barðist einnig ötullega fyrir leiðréttingu húsnæðislána á fjölmörgum vígstöðvum. Ég er svo gapandi hissa að [sic] hverju fólk er tilbúið að trúa,“ skrifar Silja.

Vissulega getur Sigmundur Davíð verið hugmyndaríkur en hugrakkur og kjarkmikill er hann svo sannarlega ekki.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert