„Þetta er áframhaldandi ofbeldi“

Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúi Pírata, hefur fengið viðvaranir frá samflokksmönnum sínum …
Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúi Pírata, hefur fengið viðvaranir frá samflokksmönnum sínum að hún muni ekki njóta stuðnings þeirra sem óháður fulltrúi.

„Ég er að fá viðvaranir úr mörgum áttum að það verði hjólað í mig muni ég starfa sem óháður fulltrúi,“ segir Rannveig Ernudóttur, varaborgarfulltrúi Pírata, í samtali við mbl.is.

Rannveig birti stöðuuppfærslu á Facebook á föstudag þar sem hún gagnrýndi vinnubrögð samflokksmanna sinna harkalega. Hún hefur sent skrif­stofu borg­ar­stjórn­ar er­indi þar sem hún vill fá að vita um af­leiðing­ar þess ef hún sem kjör­inn full­trúi segði sig úr Pír­öt­um, þar sem hún hafi enn mik­inn áhuga á að starfa fyr­ir borg­ina. Samkvæmt skriflegu svari frá Helgu Björk Laxdal, skrifstofustjóra borgarinnar, er erindi Rannveigar í vinnslu og verður því svarað í vikunni. 

Rannveig segir að henni hafi borist viðvaranir um að samflokksmenn hennar muni ganga gegn henni muni hún ákveða að starfa sem óháður fulltrúi. „Þeir munu ekki samþykkja það að ég muni starfa sem óháður fulltrúi með kosningu á bakvið mig sem Pírati. Ég er að heyra af aðgerðum sem á að fara í gegn mér. Það er grafalvarlegt.“

Úrsagnir vegna eineltis

Gustað hefur um Pírata síðustu vikur og hafa að minnsta kosti fimm félagsmenn sagt sig úr flokknum vegna meðvirkni með eineltishrottum og aðför gegn fólki innan flokksins, ef marka má orð Rannveigar og Atla Þórs Fann­dal, blaðamanns og fyrr­ver­andi póli­tísks ráðgjafa Pírata.

Atli Þór hefur sagt sig úr flokknum sem og Sindri Viborg, fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata. Erla Hlynsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, staðfestir í samtali við mbl.is að þrír aðrir hafi sagt sig úr flokknum síðustu daga en hún gat ekki staðfest að úrasagnirnar tengist því sem á hefur gengið. 

Rannveig segir að viðvaranirnar sem hún hafi fengið sýni áframhaldandi beitingu ofbeldis innan flokksins. „Þetta er áframhaldandi ofbeldi og sýnir innræti þeirra sem eru í þessum aðgerðum. Það er enginn vilji til að vinna með fólki.“

Rannveig hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hún segi sig úr Pírötum en hún hefur ákveðið að taka sér hlé frá störfum flokksins á meðan unnið er að úrlausn mála innan Pírata. Hún á von á svari frá skrifstofu borgarstjórnar en hún segist ekki ætla að taka ákvörðun um framhaldið í þessari viku þar sem hún vill gefa flokknum svigrúm til að vinna úr þeim málum sem hafa komið upp síðustu vikur.

„Mig langar ekki að segja mig úr Pírötum. Það má líta á þennan gjörning hjá mér sem lokaúrræði til að þvinga þau til að gera eitthvað,“ segir Rannveig.  

„Fólk sem æpir og öskrar“

Píratar hafa boðað til fundar í kvöld þar sem kynnt verða drög að verklagsreglum fyrir Pírata gegn einelti og kynferðislegri áreitni. Fundurinn er hluti af fundaröð sem hófst í vor. Rannveig ætlar ekki að mæta á fundinn þar sem hún segir einn skipuleggjandann vera geranda í þeim innanhússdeilum sem ríkja í flokknum.

„Ein manneskja sem er að vinna í þessu ferli er ein af ofbeldismanneskjunum. Mér dettur ekki í hug að taka þátt í vinnunni sem hún er að vinna í. Ég hef engan áhuga á að sitja innan um þetta fólk þar sem þetta er fólk sem æpir og öskrar, það er ekki samtal, það er spilaður rosalegur leikur og ég er búin að fá nóg af því,“ segir Rannveig, sem hefur enga trú á að eitthvað gott komi út úr þessum fundi.

Að hennar mati þurfa kjörnir fulltrúar flokksins að stíga inn í og segist hún tilbúin til að veita þeim smá svigrúm til að sýna fram á að það sé í alvörunni verið að vinna í málunum innan flokksins. „Ég vil að ég sé hluti af flokki sem getur unað því að fólk sé með mismunandi skoðanir en að það rýri ekki manngildi þess,“ segir Rannveig.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert