Píratar héldu í gær kynningu á drögum að verklagsreglum flokksins um bann við einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Jón Þór Ólafsson þingmaður flokksins stjórnaði fundinum, sem var ótengdur þeim fregnum af einelti sem hafa borist úr röðum Pírata að undanförnu og leitt til þess að bæði varaborgarfulltrúi og pólitískur ráðgjafi flokksins hafa dregið sig í hlé frá flokksstarfinu á allra síðustu dögum.
Píratar sendu frá sér tilkynningu laust fyrir hádegi, undirritaða af framkvæmdaráðsliðum, þingmönnum og sveitarstjórnarfulltrúum flokksins. Þar sagði að þeirra takmark væri að „búa til gott umhverfi fyrir félagsmenn Pírata og fyrir starfsfólk“ og að þau væru öll staðráðin í að skapa slíkt umhverfi fyrir sína félagsmenn, auk þess sem eftirsjá væru af góðu fólki í þeirra starfi og að allir væru velkomnir aftur.
„Í gær komu saman fulltrúar framkvæmdaráðs, þingflokks, sveitarstjórnarfulltrúar, trúnaðarráð og úrskurðarnefnd. Sá hópur var einhuga um að grípa þurfi til samþættra aðgerða til að koma samskiptamálum og vellíðan félagsmanna til betri vegar og vinna saman að því markmiði. Vinna er hafin við aðgerðaáætlun til að taka á þessum vanda.
Við ætlum að vanda okkur og það tekur tíma. Frekari skref verða tekin á næstu dögum,“ segir í tilkynningu Pírata.
„Við viljum að sjálfsögðu passa upp á að allt starf Pírata geti verið laust við svona fjandsamlega hegðun sem hrekur fólk í burtu,“ segir Jón Þór í samtali við blaðamann mbl.is. Hann segir það til dæmis grundvöll fyrir jafnrétti kynjanna að stjórnmálasamtök setji sér reglur um að kynferðislega áreitni í flokksstarfinu og hvernig verði tekið á því.
„Ef þú tekur ekki á þeim málum þá ertu ekki búinn að tryggja jafnrétti að starfa í stjórnmálasamtökum og það er nú þaðan, í gegnum stjórnmálasamtökin, sem fólk kemst í valdastöður í okkar samfélagi, alla vega opinberar valdastöður,“ segir Jón Þór.
Jón Þór segir að stjórnmálaflokkum, eins og öðrum fyrirtækjum og samtökum, sé lagalega skylt að setja sér reglur sem þessar, til þess að tryggja að starfsfólk sitt njóti verndar gegn einelti og áreitni. Hann segist áhugasamur um hvernig þessum málum sé háttað innan annarra stjórnmálaflokka, en að einungis Vinstri græn hafi þegar sett sér reglur sem þessar, eftir því sem hann best viti.
„Það lítur út fyrir að við séum komin með drög að mjög góðum reglum sem gætu verið orðin að lögum og verklagsreglum Pírata eftir einhverjar 2-3 vikur og það er það jákvæða í þessu,“ segir Jón Þór og bætir við að sér þyki leitt að þeir ferlar sem Píratar eru nú að ljúka við móta til þess að taka á einelti og áreitni hafi ekki verið til staðar er þau mál sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga komu upp.
„Það er bara mjög leiðinlegt að fólk hafi ekki séð tækifæri til að setja slíkt framferði, slíka framkomu í ferli sem að myndi geta leyst það, þannig að framferðið eða svona hegðun myndi hætta og það væri hægt að bregðast einhvern veginn við því ef að fólk léti sér ekki segjast.
Megintilgangurinn í þessu öllu saman er það að starfið geti virkað vel og að fólki líði vel að starfa, það var ekki í þessu tilfelli, en við þá bregðumst við og reynum að skapa umhverfi þannig að það geti verið svo. Við erum bara mjög bjartsýn á það að þetta geti gripið svona vandamál og þau hefðu ekki farið þangað sem þau fóru ef þessar verklagsreglur hefðu verið komnar,“ segir Jón Þór.
Hann segir að stjórnmálaflokkar séu drifnir áfram af framlagi sjálfboðaliða og að flokkarnir verði að skapa gott vinnuumhverfi fyrir þá sem koma að starfinu. Jón Þór telur að þeir sem vikið hafa úr starfinu eða íhuga að gera það vegna eineltismála, ættu að geta séð leið til baka inn í flokksstarfið eftir að nýjar verklagsreglur líta dagsins ljós.
„Ég myndi segja það, að ef að þú vékst úr flokksstarfi af því að þér fannst vera fjandsamlegt umhverfi og svo sérðu að félagið brást við á réttan, málefnalegan og lausnamiðaðan hátt og fór í það að skapa umhverfi þar sem slíkt fjandsamlegt framferði er ekki liðið og er tekið á á lausnamiðaðan hátt, þá sé ég ekki annað en að margir myndu geta snúið til baka, inn í þá farsælt samstarf,“ segir Jón Þór.