Gerir kjaraviðræður „flóknari og erfiðari“

Drífa Snædal forseti ASÍ segir að vaxtahækkun Seðlabankans geri kjaraviðræður …
Drífa Snædal forseti ASÍ segir að vaxtahækkun Seðlabankans geri kjaraviðræður erfiðari. mbl.is/Valli

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir „gríðarlegum vonbrigðum“ með þá ákvörðun peningastefnunefndar að hækka stýrivexti og segir í yfirlýsingu að ákvörðunin muni ekki verða til þess að auðvelda að sátt náist í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.

„Nú þegar eru stýrivextir hér á landi margfalt hærri en í nágrannalöndunum og vaxtastigið hefur veruleg áhrif á lífskjör almennings og möguleika fólks til að sjá fyrir sér. Ef takast á að bæta lífskjör hér á landi í komandi kjarasamningum þurfa allir að leggjast á eitt og er peningastefnunefnd Seðlabankans, þar alls ekki undanskilin,“ segir í yfirlýsingunni frá ASÍ, sem er sett fram undir yfirskriftinni: „Hækkun stýrivaxta kaldar kveðjur í kjarasamningsviðræður“.

Drífa Snædal forseti ASÍ segist ekki hafa miklu við þetta að bæta, í samtali við blaðamann mbl.is. Hún segir að vaxtahækkunin fari beint út í verðlagið, hafi áhrif á skammtímalán almennings og geri fjármögnun fyrirtækjanna í landinu kostnaðarsamari.

„Það spilar inn í kjaraviðræðurnar, gerir þær flóknari og erfiðari,“ segir Drífa, sem segir að hún hafi allt eins átt von á því að vextir yrðu hækkaðir í dag, en að hún hafi vonað að af því yrði ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert