„Það er ekki hægt hins vegar að búa við það að þessi brigslyrði eins þingmanns eða heils þingflokks í garð eins þingmanns, gangi hér slag eftir slag með einhverra missera millibili,“ sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag.
Vísaði Páll þar til ummæla Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, þar sem hann hefði þjófkennt Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. „Það er ekkert matskennt hjá mér að þessi þjófkenning hafi farið fram, vegna þess að fyrrgreindi þingmaðurinn tilkynnti það sérstaklega að hann hefði ekki þjófkennt hann áður en gerði það nú.“
„Ég ætla ekki að fjölyrða hér um það hvað þessi ummæli eru ósmekkleg, óheiðarleg, ómerkileg og svívirðileg. Þetta eru tilhæfulaus brigslyrði sem einn hv. þingmaður lét falla um annan. Ég vil hins vegar beina því til forseta og forystu þingsins að fundinn verði einhver endir á þetta mál,“ sagði Páll enn fremur. Slíkar ásakanir kæmu reglulega fram.
„Nú á forseti og forysta þingsins að mínu viti þrjá kosti í þessu: Það er að vísa þessu frá sem tilhæfulausum aðdróttunum og víta þessi ummæli með einhverjum hætti. Forysta þingsins á líka þann kostinn að rannsaka málið og kanna hvort hægt sé að segja að hér hafi verið farið á svig við þær reglur sem þingið fer eftir. Eða, ef þingforystan telur rökstuddan grun um að hér hafi peningum verið stolið frá Alþingi getur forysta þingsins væntanlega eftir atvikum kært það til lögreglu.“ Hins vegar væri ekki hægt að búa endalaust við slík brigslyrði.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, tók upp hanskann fyrir Björn Leví og sagði hann hafa sent inn erindi til forsætisnefndar Alþingis þar sem hann óskaði eftir því að nefndin tæki afstöðu til þess hvort Ásmundur hefði brotið gegn reglum forsætisnefndar um starfskostnað. Þetta væri hið rétta formlega ferli við slíkar aðstæður. Rétt ferli varðandi það að óska eftir því að annar þingmaður væri víttur væri einnig að leita til nefndarinnar.