Þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Vinstri grænna vilja að Alþingi Íslendinga viðurkenni þjóðarmorð Tyrkja á Armenum á árunum 1915-1917 og virði með því minningu fórnarlambanna, samkvæmt framlagðri þingsályktunartillögu.
Margrét Tryggvadóttir varaþingmaður Samfylkingar er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, en þetta er í fjórða sinn sem sama tillaga eða tillaga með sama markmið er lögð fyrir Alþingi. Í greinargerð með tillögunni segir að ákaflega mikilvægt sé að heimsbyggðin viðurkenni þau voðaverk sem framin voru á armensku þjóðinni sem þjóðarmorð. Ekki er vitað hve margir létu lífið, en talið er að fjöldi þeirra sé á bilinu 600.000-1.500.000.
„Þótt langt sé um liðið var þetta glæpur gegn mannkyni og þar með gegn okkur öllum. Þau voðaverk sem framin verða við allt hernaðarbrölt heimsins í nútíð og framtíð byggjast á því sem áður hefur verið gert. Löngu tímabært er að íslensk stjórnvöld viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915–17 og virði minningu fórnarlamba þessa glæps gegn mannkyni,“ segir í greinargerðinni.
Tyrkir hafa barist gegn því að aðgerðir landa þeirra fyrir yfir 100 árum séu skilgreindar sem þjóðarmorð og hafa gjarnan kallað sendiherra sína frá ríkjum sem viðurkenna glæpinn með opinberum ályktunum, til dæmis frá Bandaríkjunum, Svíþjóð og Þýskalandi, auk þess að hafa reynt að koma í veg fyrir að Frans páfi viðurkenndi þjóðarmorðið.