Fordómafull skilaboð á háskólasvæðinu

Dæmi um skilaboð sem hafa birst á háskólasvæðinu síðustu daga.
Dæmi um skilaboð sem hafa birst á háskólasvæðinu síðustu daga. Ljósmynd/Twitter

Fordómafull skilaboð sem dreift hefur verið um háskólasvæðið að undanförnu voru sett upp án leyfis og vitundar Háskóla Íslands og eru í fullkominni andstöðu við stefnu skólans og gildi. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Jón Atli Benediktsson rektor sendi á nemendur skólans í dag.

Um er að ræða veggspjöld og límmiða sem innihalda skilaboð á borð við að „það sé í lagi að vera hvítur“ og tengjast skilaboðin herferð sem bandaríska alt-right samfélagið setti af stað fyrir um ári síðan.

Vegna skilaboðanna vill Jón Atli árétta mikilvægi þess að allir hópar fólks upplifi sig örugga á háskólasvæðinu og að allir hjálpist að við að tryggja að virðing sé borin fyrir fjölbreytileika mannlífsins.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að skilaboðunum hafi …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að skilaboðunum hafi verið dreift án leyfis og vitundar skólans. mbl.is/​Hari

Þá minnir hann einnig á að jafnrétti sé eitt af þremur grunngildum Háskóla Íslands „Í jafnréttisáætlun Háskóla Íslands er lögð áhersla á að mismunun á grundvelli kyns, kyngervis, uppruna, litarháttar, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, heilsufars, trúarbragða, skoðana, búsetu, efnahags eða menningar er óheimil innan háskólans,“ segir rektor.

Að lokum segir hann að hlutverk allra við háskólann sé stuðla að góðu háskólasamfélagi þar sem virðing og jafnrétti eru í hávegi höfð og kynþáttafordómar fordæmdir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert