Sú túlkun að Orkuveita Reykjavíkur hafi tekið lán til að greiða 750 milljóna króna arðgreiðslu til eigenda sinna „kallar á einstaklega einbeittan vilja til útúrsnúninga.“ Þetta segir Gylfi Magnússon, varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, en í morgun kom fram gagnrýni frá Hildi Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa í stjórn Orkuveitunnar, um lántökuna.
Sagði Hildur lánið á mjög óhagstæðum kjörum og að fyrirtækið sæti uppi með háan vaxtakostnað til að greiða Reykjavíkurborg arð.
Gylfi segir í Facebook-færslu að hagnaður Orkuveitunnar árið 2016 hafi verið 13,4 milljarðar, skuldir hafi lækkað um 17,2 milljarða og eigið fé hafi aukist um 6,7 milljarða og verið 121,5 milljarðar í árslok. „Vissulega voru tekin ný lán, það er gert á hverju ári og er eðlilegur liður í fjárstýringu, en það var bara greitt miklu meira niður af lánum en var tekið af lánum,“ segir Gylfi í færslunni.
Segir Gylfi arðinn upp á 750 milljónir aðeins hafa verið 5,6% af hagnaði ársins og að túlkun Hildar hafi kallað á einstaklega einbeittan vilja til útúrsnúninga af hennar hálfu. Segir hann nærtækara að fagna bættum fjárhag fyrirtækisins.
Þá segir Gylfi að í árslok ársins 2017 hafi skuldir verið 167,4 milljarðar og lækkað úr 240,9 milljörðum frá árinu 2009. Þá hafi eigið fé verið 143,9 milljarðar og hafi það hækkað um 22 milljarða milli ára.
„Þannig að á átta árum, 2009-2017, hefur eigið fé vaxið um rúma 100 milljarða – meira en milljarð á mánuði – og skuldir minnkað um 73,5 milljarða – 765 milljónir króna á mánuði. Geri aðrir betur,“ segir Gylfi að lokum í færslunni.