„Ef þú stofnar þjóðgarð um eitthvað svæði þá hlýtur þar að vera eitthvað sem fólk vill sjá,“ sagði Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, í erindi sínu á Umhverfisþingi sem umhverfis- og auðlindaráðherra boðaði til og var haldið á Grand-hóteli í gær.
Þar fjallaði Kristinn um þær breytingar sem hafa átt sér stað innan sveitarfélagsins síðan þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi var stofnaður 28. maí árið 2001.
„Að sjálfsögðu er þetta samspil fjölgunar ferðamanna og þess að við eigum þjóðgarð,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is en í fyrirlestri sínum í gær studdist Kristinn við tölulegar staðreyndir, t.d. um umferðaraukningu og fjölgun ferðamanna á svæðinu, sem hefur verið mikil.
Sem dæmi benti Kristinn á að umferðin yfir sumartímann hefði aukist um 344%, þ.e. úr 344 bílum á dag í 1.183, við Hraunsmúla. Þá sagði hann að fjöldi gesta á gestastofu þjóðgarðsins hefðu verið 3.102 árið 2004, en 68.204 í ár.
Kristinn bendir einnig á aukna ánægju heimamanna og segir að aukinn fjöldi ferðamanna, sem skýra megi að hluta með tilkomu þjóðgarðarsins, auki lífsgæði heimafólks.
„Það sem við heimamenn fáum er fullt af gæðum. Fyrir utan það að það skapist störf í kringum þetta þá fáum við líka fjölda kaffi- og veitingahúsa. Þegar ég kom fyrst inn á Snæfellsnesið þá var í mínu samfélagi enginn staður sem var opinn yfir vetrartímann. Í dag geturðu kannski valið um nokkra staði og þeir eru allir mjög góðir. Þetta eru lífsgæði fyrir okkur íbúana.“