„Þetta er dapurlegur vitnisburður um það á hvaða plan orðræðan er komin,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR í samtali við mbl.is. Hann segir lítið mark takandi á könnun Samtaka atvinnulífsins, sem sé sett fram einhliða.
Hann segir könnunina ekki vísbendingu um að „allt sé hérna á heljarþröm.“ Slíka orðræðu segir hann hræðsluáróður.
Fjallað var um könnun Samtaka atvinnulífsins á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Niðurstaða könnunarinnar er á þá leið að uppsögnum fjölgi nú töluvert á vinnumarkaði.
„Það er vægast sagt ábyrgðarlaust að slengja þessu fram á forsíðu blaðanna, þegar þetta tekur aðeins mið af annari hlið peningsins,“ segir Ragnar og vísar þar með til þess að ekki er tekið neitt mið af nýráðningum í könnun SA.
„Það er athyglisvert að SA sem kalli eftir ábyrgri umræðu um þessi efni setji fram niðurstöður könnunar sem standast enga skoðun,“ segir Ragnar. Hann vísar í tölfræði Hagstofunnar sem gefur, samkvæmt honum, allt aðra mynd af stöðunni en þessi könnun.
„Könnun er eitt og opinber gögn eru annað. Ef niðurstöður þessarar könnunar eru bornar saman við tölur Hagstofunnar til dæmis sést að þær eru í ósamræmi við alla tölfræði.“
Þannig segir hann 3000 störf vera um 1,5% sveifla af heildarstörfum landsins sem verði bara að teljast mjög eðlilegt. Ætla megi að fjöldi fólks sem þessu nemur hafi verið nýráðinn í t.d. önnur störf.
„Framsetningin er þannig til þess eins gerð að ala á ótta. Þetta er dapurlegt því þetta sýnir hversu langt viðsemjendur eru tilbúnir að ganga í hræðsluáróðri gegn verkalýðshreyfingunni og samfélaginu öllu,“ segir Ragnar.
Þá hafi störfum, skv. Hagstofunni, fjölgað um 18.732 frá janúar til júní 2018. Óháð sveiflum frá vetri til sumars, hljóti það að gefa vísbendingu um allt aðra stöðu en Samtök atvinnulífsins reyna að mála upp, segir Ragnar loks.