„Þetta var bæði hjartnæm og alvöruþrungin athöfn. Það rigndi mikið og var þungt yfir og það gaf viðburðinum svona, réttan blæ, fannst mér. Frakkar kunna að setja svona athöfn á svið,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í samtali við blaðamann mbl.is, um mikla athöfn sem hann sótti í París í dag, sem haldin var þess að minnast þess að öld er liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldar.
„Macron hélt innihaldsríka ræðu um þá vá sem getur steðjað að okkur öllum þegar að þjóðremba og illska tekur öll völd eins og segja má að gerst hafi í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldar, en um leið nefndi hann að við ættum að horfa björtum augum fram á veg og undir það má alveg taka,“ segir forsetinn, en einnig héldu þau Angela Merkel kanslari Þýskalands og Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ræðu við upphaf sérstakrar friðarráðstefnu við Sigurbogann í París í dag.
„Allt var þetta með virðulegum og merkum blæ og í sjálfu sér gaman að taka þátt í þessum merka viðburði,“ segir Guðni, en á milli ræðuhalda og viðburða af ýmsu tagi gafst honum færi á að ræða við aðra þjóðarleiðtoga.
„Ég átti formlegan fund með forseta Króatíu og sat pallborðsumræður með forsetum Finnlands, Slóveníu og aftur Króatíu. Auk þess er stungið saman nefjum yfir borðum og á göngum og maður fann vel hvernig hinn norræni strengur er sterkur. Ég hitti að máli forsætisráðherra Svíþjóðar og Danmerkur og Finnlandsforseta og ræddi líka við forseta Eistlands og Lettlands og þar bar meðal annars á góma væntanlega heimsókn mína til Lettlands í næstu viku,“ en Guðni fer í opinbera heimsókn og verður viðstaddur er Lettar fagna 100 ára sjálfstæði sínu næstu helgi.
„1918 er svo merkt ár í sögu álfunnar, endalok fyrra stríðs og nýfengið sjálfstæði margra ríkja, þar á meðal okkar auðvitað. Það er margs að minnast og ríkt tilefni til þess að minna okkur á að við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að eins mikill harmleikur og fyrri heimsstyrjöldin endurtaki sig ekki,“ segir forseti Íslands.
Á fundinum með Kolindu Grabar-Kitarović Króatíuforseta lofaði hún frumkvæði og framgöngu Íslands í kynjajafnréttismálum, að sögn Guðna.
„Við ræddum einnig um mögulegt samstarf ríkjanna á hinum ýmsu sviðum og Króatíuforseti lofaði og prísaði framgöngu íslenskra stjórnvalda þegar Króatía lýsti yfir sjálfstæði árið 1991 og kvað þá við sama tón og hjá forystufólki og raunar almenningi í Eystrasaltslöndunum, þegar maður fer þangað,“ segir forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.