Félagarnir og æskuvinirnir Kristinn Rúnarsson og Þorsteinn Guðjónsson höfðu klifið flesta tinda Íslands áður en þeir eltu fjallgöngudrauminn út í heim. Þeir klifu meðal annars hæsta fjall Suður-Ameríku og nokkur fjöll í Norður-Ameríku áður en leiðin lá til Nepal árið 1988, en þaðan sneru þeir ekki aftur.
„Þetta var algjörlega þeirra líf og yndi,“ segir Rúnar Guðbjartsson, faðir Kristins. Fljótlega upp úr fermingu báðu þeir um leyfi til að fara á Esjuna. „Ég gerði það að skilyrði að þeir yrðu að fara á námskeið hjá skátunum og læra á áttavita áður en þeir færu í fjöllin. Þeim fannst það ekkert vitlaust og þeir gerðu það.“
Þannig hófst ævintýri þeirra félaga, en bandarískur fjallgöngumaður gekk fram á lík þeirra í fjallinu í Nepal á dögunum, 30 árum eftir að þeir týndust.
Rúnar minnist þess þegar hann fékk fyrst fregnir af því að Kristinn og Þorsteinn væru týndir. „Þetta var alveg hræðilegt. Ég man að ég var að keyra Miklubrautina og mætti elsta syni mínum. Hann veifaði öllum öngum og ég hugsaði „hvað er að drengnum?“ og stoppaði við Lönguhlíð. Hann sneri við og sagði mér að hann hafi fengið þær fréttir frá Alpaklúbbnum að þeir væru týndir.“
„Það er ekki hægt að lýsa þessu. Þetta var alveg svakalega sárt,“ segir Rúnar. Íslendingar hefðu verið staddir í Nepal sem hefði auðveldað samskiptin og að allt mögulegt hafi verið gert til þess að leita að vinunum. Þyrla hafi verið send í leit, en hún ekki komist nægilega hátt og þeir Þorstein og Kristinn fundust ekki. Þá var fjallgönguhópur sem átti leið á topp Pu Mori verið beðinn að svipast um eftir þeim, en allt kom fyrir ekki.
Vegna þess að líkamsleifar þeirra fundust ekki voru einnig uppi kenningar um að þeir hefðu villst og jafnvel endað í Kína. Rúnar hafði samband við sendiherra Íslands í Kína og þaðan voru sendir leitarflokkar.
„Það voru allir boðnir og búnir til þess að hjálpa. Ég man að samstarfsfólk mitt hjá Flugleiðum safnaði pening fyrir okkur og barnsmóður Kristins og það var risaupphæð sem safnaðist,“ segir Rúnar. Það hafi verið lán í óláni að kærasta Kristins hafi verið ófrísk þegar hann fórst.
„Fimm mánuðum eftir að hann er yfirlýstur látinn þá fáum við hann aftur,“ segir Rúnar og á við son Kristins sem kom í heiminn árið eftir. „Hann var lifandi eftirmynd af pabba sínum. Það er ekki hægt að lýsa því hvað það var mikið smyrsl á sárin og gerði þetta miklu auðveldara,“ segir Rúnar, en sonur Kristins var skírður eftir þeim Þorsteini: Kristinn Steinar.
Nokkrum vikum eftir að Kristinn og Þorsteinn týndust barst Rúnari símtal frá þáverandi forstjóra Landsímans sem hafði verið á ráðstefnu í Japan. „Á leiðinni til Japan hafði hann verið í stórri þotu og þegar hann var að fylla út passann sinn sá það maður sem sat við hliðina á honum, að hann væri Íslendingur. Hann sagði þetta skrýtið enda nýbúinn að hitta tvo Íslendinga þegar hann gekk á Pu Mori,“ útskýrir Rúnar.
Maðurinn, sem var úr Eyjaálfu, hafði verið með hóp á leiðinni niður fjallið þegar þeir mættu þeim Kristni og Þorsteini á leiðinni upp. Að sögn Rúnars var augljóst að maðurinn hafði ekki vitað af örlögum þeirra og varð hann upprifinn við fregnirnar og sagði hópinn hafa dáðst að þeirri aðferð sem tvímenningarnir notuðu á leiðinni upp. Þeir hafi verið í sjónlínu við hópinn allan tímann og þegar Þorsteinn og Kristinn hafi horfið þeim sjónum hafi verið örstutt eftir á toppinn.
„Hann heimtaði að fá að skrifa bréf til okkar hérna heima, þar sem hann kvittaði fyrir og staðfesti að þeir hefðu náð toppnum. Forstjóri Landsímans kom með bréfið til okkar,“ segir Rúnar. Að ná toppnum hafi verið draumur þeirra, en upphaflega var talið að þeir hefðu farist á leiðinni upp og því ekki náð markmiði sínu.
Rúnar segir ótrúlegt hvernig eins konar ástarsamband geti myndast á milli fjallgöngufólks og fjalla, en í síðasta póstkortinu sem Kristinn sendi heim sagði hann föður sínum að þeir væru komnir á stað þar sem þeir sæju topp Pu Mori, „fjallsins þeirra“.
Að sögn Rúnars tók það fjölskylduna langan tíma að sætta sig við örlög Kristins en að æðruleysið hafi hjálpað mikið til. „Ég gleymi því aldrei þegar ég hitti góðan vin minn eftir þetta, þegar allir voru að votta mér samúð sína. Hann segir við mig að það hljóti að vera hræðilegt að missa son svona á besta aldri. „Já,“ sagði ég, „það er hræðilegt, en sjáðu til vinur, það deyr ungt fólk á hverri sekúndu einhvers staðar í heiminum. Hvernig get ég ætlast til þess að ég sé alltaf stikkfrí?“ Þetta kom alveg óvart. Þegar maður er kominn í þennan gír þá er mikið æðruleysi í manni,“ segir Rúnar, og að konan hans, móðir Kristins, hafi verið í sama pakka. „Við fjölskyldan vorum mjög samhent.“
Fregnir bárust af líkfundinum nú rétt fyrir helgi. Rúnar var búinn að sætta sig við örlög sonarins og sagði að upphaflega hafi fundurinn ekki snert hann mjög mikið. „Það var ekki fyrr en í sundleikfimi í morgun þegar fólk var að taka utan um mig og votta mér samúð, þá hrökk upp úr mér „Óskið mér til hamingju. Hann er fundinn.“.“
Rúnar segir það enn óljóst hverjar aðstæður eru í fjallinu og hvort verði hægt að flytja lík þeirra Kristins og Þorsteins niður og til Íslands. Fyrir honum sé það ekki aðalmálið, heldur að þeir séu fundnir og að í því felist ákveðin málalok. Þá hafi hann fengið símtal frá barnabarninu, Kristni Steinari, í morgun.
„Hann sagði mér að bæði Kristinn og Þorsteinn hefðu sagt áður en þeir fóru, að ef eitthvað kæmi upp á, þá ætti fjallið þá. Þeir vildu ekki að fólk yrði sett í lífshættu til að bjarga þeim. Fjallið ætti það sem fjallið tæki.“