Vinnudagurinn styttri en talið var?

mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðað við nýbirt gögn frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) má draga þá ályktun að Ísland sé í hópi þeirra ríkja heimsins þar sem unninn er hvað stystur vinnudagur en ekki lengstur eins og gjarnan hefur verið gengið út frá hér á landi. Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, vekur athygli á þessu á Twitter-síðu sinni.

Konráð bendir á að Ísland sé ekki inni í gögnum OECD en ef miðað sé við tölur Hagstofu Íslands lendi landið á milli Hollands og Frakklands. Fjarveru Íslands í gögnum OECD telur Konráð hugsanlega skýrast af því að Hagstofan hafi fyrr á þessu ári birt nýtt mat á útreikningum vinnustunda sem OECD eigi líklega eftir að taka tillit til og að fjöldi vinnustunda hafi áður verið ofmetinn.

Konráð bendir enn fremur á að OECD taki sérstaklega fram að erfitt sé að bera slíkar upplýsingar saman á milli landa. Það geri ríkjandi skoðun um langan vinnudag Íslendinga enn athyglisverðari. Seðlabankinn hafi fjallað sérstaklega um það hvernig niðurstöður mælinga á Íslandi í þessum efnum séu á skjön við önnur Evrópuríki.

Mikilvægt að byggt sé á réttum upplýsingum

Hagstofan greindi frá því í febrúar að ný aðferðafræði stofnunarinnar við útreikninga á vinnustundum benti til þess að fjöldi vinnustunda hér á landi væri minni en áður hafi verið talið og að munurinn gæti verið á bilinu 16-22%. Bent hefði verið á að hefðbundin 40 stunda vinnuvika væri í raun styttri vegna kjarasamningsbundinna réttinda.

Hagstofan tekur fram að rannsóknir vanti í þessum efnum og tekur Konráð undir það í samtali við mbl.is. Mikilvægt sé að réttar upplýsingar liggi fyrir til þess að fram geti farið upplýst umræða um málið. Ekki síst ef taka eigi mikilvægar ákvarðanir á grundvelli samanburðar við önnur ríki sem síðan standist mögulega ekki skoðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert