„Það er engin þörf á 17 nýjum aðstoðarmönnum þingflokka til að aðstoða við lagasmíð þingmanna. Það er hins vegar full þörf á að styrkja lagaskrifstofu þingsins til að hún geti bæði aðstoðað við slíka smíð og gætt þess að villur séu ekki í þeim málum sem koma fram.“
Þetta segir Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni um fyrirætlanir um að fjölga aðstoðarmönnum þingflokka á Alþingi. Karl segir þingmannamál skipta hundruðum á hverju þingi og séu mörg þeirra stórgóð. Hins vegar séu þau þingmannamál sem fáist samþykkt teljandi á fingrum annarrar handar.
„Í lok þings afhenda þingflokkar síðan hver öðrum jólagjafir til að liðka fyrir samningum - hver þingflokkur fær eitt þingmannamál afgreitt. Önnur mál sem fara í gegnum þingið koma oftast frá ráðherrum. Á Íslandi ríkir nefnilega ráðherraræði.“
Gert er ráð fyrir að ráðið verði í umræddar stöður aðstoðarmanna innan þriggja ára en hver þingflokkur fær aðstoð eftir þingstyrk sínum og mun kostnaður nema hátt í 200 milljónum króna á ári. Um er að ræða áform sem voru komin langt á veg fyrir bankahrunið að sögn Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, en frestað í kjölfar þess.