Jón Gnarr hefur ákveðið að farga mynd eftir Banksy, sem hann fékk að gjöf þegar hann starfaði sem borgarstjóri Reykjavíkur, við fyrsta tækifæri „þannig að hún og allt það sem hún stendur fyrir trufli engan“.
Jón skrifar langa færslu um málið á Facebook og segist í einfeldni sinni hafa haldið að verkið væri eitthvað merkilegt og þess vegna hafi hann haldið því fram á sínum tíma. Hann útskýrir hvernig hann hafi verið í samskiptum við Banksy í gegnum þriðja aðila, sem sendi honum verkið með tölvupósti og gaf honum leyfi til þess að prenta það út.
„Myndin hefur hangið uppi og ég hef tekið fjölda mynda af mér og öðrum fyrir framan hana sem birst hafa á facebook, twitter og öðrum stöðum. Og mér fannst það ekkert tiltökumál þar sem myndin er verðlaus og hefur takmarkað gildi fyrir nokkurn nema mig. Annars hefði mér aldrei dottið í hug að taka hana með mér og hvorki starfsfólk Ráðhússins, Listasafns Reykjavíkur eða samstarfsfólk hefði heldur látið það gerast hefði verið um raunveruleg verðmæti að ræða, sem ég hefði ekki áttað mig á.“
Jón segir fólk mega trúa því sem það vill og að nú geti einhverjir „ornað sér yfir því að þeir hafi sýnt fram á það hvað ég sé nú í rauninni mikill trúður, afglapi og bjáni“.
Hann segist enga ánægju hafa af myndinni lengur og því hafi hann, í samráði við konu sína, ákveðið að farga myndinni.